Miklar sveiflur í fjölda ferðamanna eftir þjóðum

Í heildina fækkaði erlendu ferðafólki hér á landi um 13 prósent í janúar. Sveiflurnar voru ólíkar milli þjóða.

Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Vægi breskra og bandarískra feðramanna hér á landi var 40 prósent nú í janúar sem er sex prósentustiga lækkun frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Framboð á áætlunarflugi héðan og vestur um haf hefur líka dregist verulega saman eftir fall WOW air. Til viðbótar hefur Icelandair líka skorið niður og svo munar um að Delta flugfélagið hefur hætt vetrarflugi til Íslands frá New York.

Á sama tíma og Bretum og Bandaríkjamönnum fækkar í ferðahópnum þá fjölgar Kínverjum töluvert. Í janúar flugu héðan fjórðungi fleiri Kínverjar en í janúar í fyrra. Skýringin á því er sennilega helst að kínversku áramótin voru fyrr á ferðinni að þessu sinni. Nú voru þau síðustu helgina í janúar en ekki í byrjun febrúar eins og undanfarin ár.

Athygli vekur að samkvæmt talningu Ferðamálastofu þá fjölgaði pólskum farþegum á Keflavíkurflugvelli verulega eða um nærri sextíu af hundraði. Hafa verður í huga að þarna eru meðtaldir pólverjar sem búsettir eru á Íslandi.

Þegar horft er til markaðssvæða þá fjölgaði ferðafólki verulega frá Austur-Evrópu og Asíu en fækkaði frá öðrum heimshlutum.