Miklu fleiri til Íslands frá Suður-Ameríku

Ferðamenn sem hingað koma frá Mið- og Suður-Ameríku eru ekki taldir sérstaklega á Keflavíkurflugvelli. Gistináttatölur Hagstofunnar sýna þó að þeim hefur fjölgað hratt hér á landi.

Mynd: Iceland.is

Það eru tíðar flugferðir í boði milli Íslands og Bandaríkjanna en aftur á móti er ekkert flogið héðan til landa sunnan við bandarísku landmærin. Þaðan koma þó sífellt fleiri ferðamenn samkvæmt því sem lesa má út úr gistináttatölum Hagstofunnar. Þar má sjá hversu margar gistinætur Brasilíumenn og svo annars vegar aðrir íbúar Suður- og Mið-Ameríku hafa bókað á íslenskum hótelum síðustu ár. Og þar hefur aukningin verið umtalsverð.

Í fyrra voru hótelnætur fólks frá þessum heimshluta nærri 38 þúsund sem er rúmlega þrefalt meira en árið 2016. Til samanburðar þá bókuðu Indverjar ögn færri gistinætur á hótelum hér á landi í fyrra og íbúar S-Kóreu stóðu fyrir helmingi færri.

Þegar rýnt er í gistitölur ferðafólks frá S- og M-Ameríku síðustu ár sést að þær tóku stórt stökk upp á við árið 2017 en þá jókst líka töluvert framboð á flugi til Norður-Ameríku. Aftur á móti fækkaði gistinóttunum ekki í fyrra þrátt fyrir að flugframboðið til Bandaríkjanna hafi þá dregist verulega saman. Hafa ber í huga að talning Hagstofunnar byggir á útgáfulandi vegabréfanna.

Í viðtalið Túrista við framkvæmdastjóra United Airlines í fyrra kom fram að eftirspurn eftir Íslandsflugi flugfélagsins hafi verið töluverð hjá farþegum þess sem hófu ferðalagi í Kólumbíu og Mexíkó.

Eins og sjá má á grafinu fyrir neðan þá var ekki ýkja mikil árstíðarsveifla í komum ferðamanna hingað frá S- og Mið-Ameríku í fyrra. Og athygli vekur hversu margar þær eru í október. Langflestir ferðamenn sem hingað koma frá löndum í þessum heimshluta gista á höfuðborgarsvæðinu. Suðurland er næst vinsælasti landshlutinn.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA