Mun taka langan tíma að koma MAX þotunum í loftið á ný

Áfram gera stjórnendur Boeing sér vonir um að kyrrsetningu MAX þotanna verði aflétt um mitt þetta ár. Þar með er ekki sagt að allar sjö hundruð þoturnar sem tilbúnar eru verði teknar í notkun.

MAX þotur Icelandair. Mynd: Gunnlaugur Rögnvaldsson

Nú eru ellefu mánuðir liðnir frá því að Boeing MAX þota Ethopian Airlines hrapaði til jarðar með þeim afleiðingum að 157 manns létu lífið. Í kjölfarið voru allar flugvélar af gerðunum Boeing MAX 8 og 9 kyrrsettar. Nokkrum mánuðum áður hafði nefnilega þota Lion Air farist með 189 manns innanborðs og aðdragandi slysanna tveggja þótti strax mjög líkur. Síðar hefur komið í ljós að rekja mátti orsakir slysanna til sérstaks hugbúnaðar í MAX þotunum.

Þegar kyrrsetningin var sett á í mars í fyrra þá voru tæplega fjögur hundruð MAX þotur komnar í notkun hjá flugfélögum víð og dreif um heiminn. Icelandair hafði til að mynda fengið til sín sex af þeim sextán þotum sem félagið hefur pantað. Framleiðsla á nýjum MAX þotum hélt svo áfram í verksmiðjum Boeing út allt síðasta ár og nú standa um þrjú hundruð þotur tilbúnar á flugbrautum og bílastæðum í kringum verksmiðjur Boeing og víðar. Þrjár þeirra hafa verið málaðar í litum Icelandair.

Að koma þessum sjö hundrað flugvélum í gagnið á ný mun „taka nokkra ársfjórðunga“ að mati Randy Tinseth, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Boeing. Þetta kom fram í viðtali við hann hjá fréttaveitunni Bloomberg í gær. Þar sagði hann jafnframt að framleiðsla á MAX þotunum yrði ekki sett í gang á ný fyrr en þær vélar sem fullsmíðaðar eru verði komnar í notkun.

Ein ástæða þess að ferlið mun taka svona langan tíma er sú nýja krafa um þeir flugmenn sem fljúga eiga MAX þotunum verði að gangast undir þjálfun í flughermi. Þess háttar hermar eru þó af skornum skammti en einn þeirra er í eigu Icelandair. Sú staðreynd gæti því flýtt fyrir því að félagið getið tekið sínar MAX þotur í gagnið. Aftur á  móti stefnir í að biðin eftir þeim sjö þotum sem einnig hafa verið pantaðar af Icelandair verði ennþá lengri.