Norwegian tapaði 22 millj­örðum króna í fyrra

Stjórnendur norska lággjaldaflugfélagsins kynntu í morgun afkomu síðasta árs og ræddu þörfina á að halda áfram að skera niður.

norwegian vetur
Mynd: Norwegian

Það hefur ríkt umtals­verð spenna í kringum Norwegian síðustu ár. Félagið hefur stækkað hratt og opnað starfs­stöðvar víða í Evrópu og líka í Banda­ríkj­unum og jafnvel í Argentínu. Á sama tíma hefur fyrir­tækið gert risa­stóra kaup­samn­inga á þotum frá bæði Boeing og Airbus. Vélarnar sem norska félagið hefur fengið frá Boeing hafa þó reynst dýrkeyptir galla­gripir, bæði Dreaml­iner og MAX þoturnar.

Nú hefur félagið lokað fimm starfstöðvum í Evrópu, komið sér út úr taprekstr­inum í Argentínu og selt flug­vélar. Þar með hefur félagið fengið inn fjár­magn til að standa undir núver­andi taprekstri. Og nú í morg­uns­árið birti félagið afkomu sína á síðasta ári og niður­staðan var tap upp á 1,6 milljarð norskra króna. Það jafn­gildir um 22 millj­örðum íslenskra króna.

Til saman­burðar tapaði Icelandair Group 7,1 millj­arði í fyrra en flug­félög samsteyp­unnar fluttu 4,7 millj­ónir farþega í fyrra eða um átta sinnum færri en Norwegian gerði.

Norwegian hefur þó ekki ennþá gengið frá samkomu­lagi við Boeing varð­andi bætur vegna MAX þotanna. Það hefur Icelandair aftur á móti gert sem þá hefur dregið úr taprekstri þess félags í fyrra.

Í máli Geir Karlsen, fjár­mála­stjóra Norwegian, á afkomufundi félagsins í morgun kom fram að viðræður við Boeing hafi dregist á langinn og úr þessu þá verði að semja um bætur fyrir komandi sex mánuði líka. Það liggi nefni­lega fyrir að MAX þoturnar fara ekki í loftið fyrr en í fyrsta lagi um mitt þetta ár. Karlsen sagði það líka augljóst að Boeing nær aldrei að standa við afhend­ing­ar­tíma á þeim þotum sem ekki hafa nú þegar verið fram­leiddar.

Norwegian hefur skorið veru­lega niður sætaframboð síðustu mánuði og gera má ráð fyrir áfram­hald­andi niður­skurði. Skuldastaða félagsins líka mjög þung líkt og endur­tekið hefur komið fram í máli stjórn­enda félagsins.