Norwegian tapaði 22 milljörðum króna í fyrra

Stjórnendur norska lággjaldaflugfélagsins kynntu í morgun afkomu síðasta árs og ræddu þörfina á að halda áfram að skera niður.

norwegian vetur
Mynd: Norwegian

Það hefur ríkt umtalsverð spenna í kringum Norwegian síðustu ár. Félagið hefur stækkað hratt og opnað starfsstöðvar víða í Evrópu og líka í Bandaríkjunum og jafnvel í Argentínu. Á sama tíma hefur fyrirtækið gert risastóra kaupsamninga á þotum frá bæði Boeing og Airbus. Vélarnar sem norska félagið hefur fengið frá Boeing hafa þó reynst dýrkeyptir gallagripir, bæði Dreamliner og MAX þoturnar.

Nú hefur félagið lokað fimm starfstöðvum í Evrópu, komið sér út úr taprekstrinum í Argentínu og selt flugvélar. Þar með hefur félagið fengið inn fjármagn til að standa undir núverandi taprekstri. Og nú í morgunsárið birti félagið afkomu sína á síðasta ári og niðurstaðan var tap upp á 1,6 milljarð norskra króna. Það jafngildir um 22 milljörðum íslenskra króna.

Til samanburðar tapaði Icelandair Group 7,1 milljarði í fyrra en flugfélög samsteypunnar fluttu 4,7 milljónir farþega í fyrra eða um átta sinnum færri en Norwegian gerði.

Norwegian hefur þó ekki ennþá gengið frá samkomulagi við Boeing varðandi bætur vegna MAX þotanna. Það hefur Icelandair aftur á móti gert sem þá hefur dregið úr taprekstri þess félags í fyrra.

Í máli Geir Karlsen, fjármálastjóra Norwegian, á afkomufundi félagsins í morgun kom fram að viðræður við Boeing hafi dregist á langinn og úr þessu þá verði að semja um bætur fyrir komandi sex mánuði líka. Það liggi nefnilega fyrir að MAX þoturnar fara ekki í loftið fyrr en í fyrsta lagi um mitt þetta ár. Karlsen sagði það líka augljóst að Boeing nær aldrei að standa við afhendingartíma á þeim þotum sem ekki hafa nú þegar verið framleiddar.

Norwegian hefur skorið verulega niður sætaframboð síðustu mánuði og gera má ráð fyrir áframhaldandi niðurskurði. Skuldastaða félagsins líka mjög þung líkt og endurtekið hefur komið fram í máli stjórnenda félagsins.