Ódýrt í síðustu ferðir vetrarins til Tenerife, Kanarí, Vilnius og Belfast

Í mars er komið af síðustu áætlunarferðum Norwegian til Kanaríeyja og þá fást flugmiðarnir suður á bóginn fyrir lítið. Sömu sögu er að segja um lokaferðir Wizz til Vilnus og easyJet til Bristol.

Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Í vetur hefur norska lággjaldaflugfélagið Norwegian verið stórtækt í flugi héðan til bæði Tenerife og Las Palmas á Kanarí. Í lok mars er aftur á móti komið af síðustu ferðum félagsins til þessara vinsælustu sólarstaða. Að minnsta kosti í bili því ennþá er ekki ljóst hvort félagið taki upp þráðinn að nýju í haust.

Af þeim sökum má núna finna flugmiða héðan til Tenerife og Las Palmas í mars á um 12 þúsund krónur. Þessi fargjöld eru í boði á nokkrum dagsetningum í mars en til að komast heim á ný í beinu flugi má finna sæti hjá Heimsferðum, Úrval-Útsýn og Vita. Annars er hægt að finna tengiflug í gegnum Bretland eða meginland Evrópu.

Um miðjan næsta mánuð er líka komið að síðustu ferð Wizz Air til Vilnius og kostar farmiðinn þar það sama. En líkt og hjá Norwegian þá takmarkast handfarangurinn við töskur sem komast undir sætin. Flestir þurfa því væntanlega að borga aukalega undir aðeins meiri farangur.

Síðustu ferðir vetrarvertíðar easyJet til bresku borganna Belfast og Bristol eru líka á dagskrá í lok mars og sætið í þær brottfarir er um 12 þúsund krónur. Til að komast heim á ný þarf þá að fljúga frá öðrum borgum í nágrenninu, t.d. Dublin eða London. Frá þeirri fyrrnefndu fljúga þotur Icelandair alla daga og frá London má fá far með British Airways, easyJet, Icelandair og Wizz Air.