Óvissa með flug Juneayo Airlines frá Keflavíkurflugvelli

Búið er að loka fyrir pantanir í ferðir kínverska flugfélagsins til og frá Íslandi í ár.

Fyrsta ferð kínverska flugfélagsins Juneyao Airlines til Íslands frá Sjanghæ, með viðkomu í Helsinki, var upphaflega á dagskrá í lok mars. Jómfrúarferðinni var svo seinkað fram í lok apríl vegna kórónaveirunnar sem hefur lamað allar flugsamgöngur til og frá Kína. Eftir þessar breytingar var ráðgert að Dreamliner þotur Juneyao myndu fljúga hingað tuttugu og þrjár ferðir í ár

Núna er aftur á móti ekki lengur hægt að bóka flug í þessar ferðir á heimasíðu flugfélagsins. Talsmaður þess staðfestir við Túrista að búið sé að loka fyrir bókanir en ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvert framhaldið verður. Það er því ekki útséð með að opnað verði fyrir pantanir á ný.

Flugáætlun Juneyao gerði ráð fyrir samtals þrjátíu ferðum hingað til lands frá lokum mars og fram í október. Síðan var ferðunum fækkað um sjö en eins og staðan er núna það er óljóst hvert framhaldið verður. Samtals áttu um tuttugu þúsund sæti að vera í boði í Íslandsflugi Juneyao í ár.