Í byrjun apríl í fyrra keypti bandaríski vogunarsjóðurinn PAR Capital 11,5 prósent hlut í Icelandair Group. Kaupverðið nam 5,6 milljörðum króna og kaupgengið var 9,03. Þegar þessi viðskipti voru gerð opinber voru aðeins nokkrir dagar liðnir frá falli WOW air og kyrrsetning MAX þotanna hafði varað í þrjár vikur.
Gengi Icelandair hækkaði síðastliðið vor og fram á sumarið og þá bætti PAR Capital við fleiri hlutum og á í dag 13,71 prósent í þessu stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Í byrjun ágúst fór hlutabréfaverðið hratt niður á við og þannig var gengi Icelandair í október komið niður í 5,5. Virði þess hlutar sem PAR Capital keypti í byrjun apríl hafði þá rýrnað um rúma tvo milljarða.
Nú í vikunni hefur gengið aftur á móti hækkað um nærri fimmtung og stendur núna í 8,7. Það er því stutt í að parið hjá PAR Capital þegar horft er til fyrstu kaupa sjóðsins í Icelandair. Áfram eru hlutafbréfakaup Bandaríkjamannanna í vor og sumar þó í mínus.
Icelandair birti í gærkvöld uppgjör fyrir síðasta ár og niðurstaðan var tap upp á 7,1 milljarð króna. Þetta er annað árið í röð sem tapreksturinn er svona mikill. Aftur á móti gera spá forsvarsfólks Icelandair ráð fyrir viðsnúningi í ár og batinn á síðasta fjórðungi síðasta árs var töluverður. Gengi bréfa í Icelandair hækkaði í morgunsárið um nærri tíund en hefur lækkað aðeins á ný.
NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA