Rannsókn á lendingu vélarinnar gæti tekið allt að þrjú ár

Hjólabúnaður Boeing þotu Icelandair gaf sig við lendingu í gær. Flugritar verða sendir til skoðunar á næstunni.

Mynd: Icelandair

Það er verk Icelandair að fjarlægja farþegaþotu félagsins sem nú hvílir á öðrum hreyflinum út á annarri flugbraut Keflavíkurflugvallar eftir að hjólabúnaður gaf sig við lendingu í gær. Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, þá er hin braut flugvallarins opin en ekki liggur fyrir hvenær þotan verður flutt. Guðjón segir að smá seinkanir hafi orðið áætlun Icelandair í morgun sem rekja mátti til slæmra veðurskilyrða í gær.

Rannsókn á atvikinu í gær er á frumstigi og ekki búið að skilgreina hvort það verði flokkað sem alvarlegt flugatvik eða flugslys samkvæmt því sem kemur fram í viðtali Rúv við Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Hann segir að flugritar vélarinnar verði sendir til greiningar á næstu dögum og gæti rannsókn málsins tekið eitt til þrjú ár. Um borð í þotunni í gær voru 160 farþegar og 6 áhafnarmeðlimir og urðu engin slys á fólki.

Boeing flugvélin mun vera mikið skemmd samkvæmt frétt Rúv en hún var framleidd árið 2000. Fyrstu sjö árin var þotan í rekstri hjá spænska flugfélaginu Iberia en hefur síðustu þrettán ár flutt farþega Icelandair samkvæmt vef Planespotters.