Samfélagsmiðlar

Segir hefðbundnar ferðaskrifstofur ekki alltaf bjóða hagstæðustu pakkana

Þegar mest lét ferðuðust um þrjú hundruð þúsund Norðurlandabúar á ári með ferðaskrifstofum Primera Travel Group. Samsteypan var í eigu Andra Más Ingólfssonar en Arion banki tók hana yfir í fyrra. Andri Már opnar brátt nýja ferðaskrifstofu og ljóst er að fólk í faginu fylgist vel með gangi mála.

Andri Már Ingólfsson

Nú er Aventura, ný ferðaskrifstofa Andra Más Ingólfssonar, komin með ferðaskrifstofuleyfi og verið er að ljúka undirbúningi fyrir opnunina samkvæmt fréttatilkynningu. Þar er jafnframt tekið fram að eigið fé Aventura verði 50 milljónir króna í byrjun.

Megin skýringin á því að upphæðin er tilgreind sérstaklega í tilkynningunni er líklega til að svara gagnrýni Þórunnar Reynisdóttur, forstjóra Úrval-Útsýn sem gefið hefur lítið fyrir fullyrðingar Andra Más um að rekstur Aventura sé fullfjármagnaður. Máli sínu til stuðnings bendir hún á að eigið fé ferðaskrifstofunnar hefur verið hálf milljón króna samkvæmt fyrirtækjaskrá.

Hvað sem fjármögnuninni líður þá er sérstakri bókunarvél á heimasíðu Aventura ætlað að gera fólki kleift að setja saman eigin pakkaferðir úr „hagkvæmustu tilboðunum á hverjum tíma til vinsælustu áfangastað Íslendinga.“ Aðspurður um hvort hann ráðleggi þá þeim sem ætla til Tenerife, Marbella eða Krítar í sumar að hinkra eftir að ferðaskrifstofan opni þá segir Andri Már einfaldlega, í svari til Túrista, að þar á bæ rýki tilhlökkun að sýna verðandi viðskiptavinum fjölda frábærra tilboða í vor, sumar og haust.

Primera Travel Group gerði út á hefðbundnar sólarlandaferðir þar sem farþegunum var flogið suður á bóginn með flugfélaginu Primera Air sem jafnframt tilheyrði samsteypunni. Hjá Aventura verður farþegarnir aftur á móti ekki „bundnir við fáar brottfarir í leiguflugi heldur geta valið þá daga sem henta best,“ eins og segir í tilkynningunni.

Er leiguflug þá ekki lengur góður kostur í rekstri ferðaskrifstofa? „Leiguflug er vissulega ennþá kostur og ómögulegt að segja hvað framtíðin ber í skauti sér. Hinsvegar geta hefðbundnar ferðaskrifstofur oft ekki boðið hagstæðustu pakkana þar sem þær eru bæði bundnar af því að selja sínar birgðir og geta ekki, vegna flækjustigs, blandað saman áætlunarflugi og leiguflugi. Í okkar tilfelli höfum við báða valkosti,“ segir Andri Már.

Hin nýja bókunarvél Aventura leitar að flugferðum hjá allt að 600 flugfélögum og herbergjum hjá um tveimur milljónum gististaða. Miðað við þennan mikla fjölda má þá ekki gera ráð fyrir að Aventura kaupi þjónustu af milliliðum,  t.d. hótelbókunarfyrirtækjum? „Aventura er með fjölda beinna samninga en er einnig með beinar tengingar við stærstu birgja í heimi. Þar sem við njótum afar góðra viðskiptakjara sem skila sér til okkar viðskiptavina,“ útskýrir Andri Már.

Heimasíða Aventura fór í loftið í byrjun mánaðar en sem fyrr segir þá verður fyrst hægt að bóka þar ferðir síðar í þessum mánuði. Og óhætt er að segja að það ríki töluverð spenna í ferðageiranum varðandi endurkomu Andra Más. Það hefur komið skýrt fram í samtölum Túrista við fólk í faginu bæði hér heima og erlendis sem þó vill ekki koma fram undir nafni vegna núverandi eða fyrri starfa.

Flestum er tíðrætt um hversu langa reynslu Andri Már hefur þrátt fyrir að vera „ungur enn“ enda teygir ferill hans sig aftur til loka níunda áratugar síðustu aldar. Annar viðmælanda Túrista segir Andra Má hafa gott nef fyrir geiranum og núna geti hann nýtt reynsluna til að byrja upp á nýtt án þess að vera bundin af gamla fyrirkomulaginu. „Ég fylgist alla vega spenntur með,“ bætir viðkomandi við.

Ekki eru þó allir sannfærðir um að bókunarvél eins og Aventura ætlar að gera út á geti verið lykillinn að almennilegri endurkoma. Ástæðan er sú að ferðabókunarvélar eru víða til í dag og þeim bestu haldið við að fjölmennum teymum tæknifólks sem erfitt sé að keppa við.

Einnig má benda á að framboð á sólarlandaflugi frá Íslandi er lítið. Stórtækast á þeim markaði er Norwegian en óvissa ríkir um hvernig vetraráætlun þess félags verður. Ef það norska dregur saman seglin á Keflavíkurflugvelli þá þarf Aventura að kaupa flugsætin af Icelandair, systurfélagi Vita, eða Heimsferðum sem Arion tók af Andra Má síðastliðið sumar. Valkostirnir eru því ekki margir alla vega ef Aventura vill selja beint flug suður á bóginn.

VILTU STYÐJA VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA?

Nýtt efni

Frakkar fjölmenna til Íslands allt árið um kring og í fyrra flugu frá Keflavíkurflugvelli 99 þúsund farþegar með franskt vegabréf. Það jafngildir því að fimm af hverjum 100 ferðamönnum hér á landi séu franskir enda eru flugsamgöngur milli Íslands og Parísar tíðar og stefnir í að þeir verði óvenju miklar næsta vetur. Það eru því …

Mitt inn í dimmum Grünheideskógi skammt frá Berlín hafa 80 manneskjur komið sér fyrir í kofum sem þau hafa byggt hátt uppi trjánum. Kofaþorpið eru bækistöðvar mótmælenda eða aðgerðarsinna eins og þau kalla sig. Einmitt inni í þessum sama skógi hyggst bandaríski rafmagnsbílaframleiðandinn Tesla stækka svokallaða gígaverksmiðju sem var tekin var í notkun í mars …

Lufthansa hefur náð samkomulagi við verkalýðsfélagið Verdi og þar með er endi bundinn á langa vinnudeilu við flugvallarstarfsfólk þýska flugfélagsins. Flugáætlun Lufthansa fer því ekki úr skorðum yfir páskana líkt og útlit var fyrir en félagið er með þrjár flugferðir til Íslands á áætlun sinni yfir hátíðarnar. Hinn nýi samningur Verdi og Lufthansa kemur í …

Það voru 561 þúsund skráðar gistinætur hér á landi í febrúar sem er um 2,5 prósent samdráttur í samanburði sama tímabil í fyrra. Ef tekið er tillit til hlaupársdagsins þá var fækkunin ennþá meiri eða nærri 6 af hundraði. Á hótelum landsins voru gistinæturnar 373 þúsund sem er ögn meira en í febrúar í fyrra …

Þegar Hagstofan leggur mat á breytingar á verðlagi þá er meðal annars horft til fargjalda, bæði í flug innanlands og til útlanda. Samkvæmt nýjum verðmælingum Hagstofunnar þá lækkaði farið frá Keflavíkurflugvelli um 5 prósent í mars en farþegar í innanlandsflugi þurftu að borga 16 prósent meira en í fyrra. Á sama tíma hækkaði verðlag í …

„Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka …

Xiaomi er hraðvaxta hátæknifyrirtæki í Beijing í Kína, stofnað fyrir 14 árum af frumkvöðlinum og milljarðamæringnum Lei Jun og félögum hans. Á síðasta ári var fyrirtækið í þriðja sæti á lista þeirra sem seldu flesta farsímana - næst á eftir Samsung og Apple. Xiaomi framleiðir og selur margskonar annan háþróaðan tæknibúnað og neytendavörur en samdráttur …

Fyrir rúmu ári var greint frá því að þýska Lufthansa-samsteypan hefði áhuga á að kaupa 40 prósenta hlut í ítalska þjóðarflugfélaginu ITA en niðurstaða hefur ekki enn fengist. Í janúar hóf Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins rannsókn á samkeppnisáhrifum þess að Þjóðverjarnir eignuðust stóran hlut í ítalska flugfélaginu sem lengi hefur verið stjórnvöldum á Ítalíu höfuðverkur.  Nú í …