Sitja á lendingarleyfum á Keflavíkurflugvelli sem verða ólíklega notuð

Fyrir nokkrum árum síðan úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Icelandair skildi láta WOW air fá hluta af lendingarleyfum sínum. Nú stefnir í að Icelandair muni ekki einu sinni nota öll þau leyfi sem félagið er með á þessum tímum sem áður stóð styr um.

Mynd: Isavia

Þrátt fyrir að Icelandair hafi í fyrra gefið frá sér allt flug til bandarísku borganna Kansas City og Cleveland og Halifax í Kanada þá er félagið ennþá með frátekna afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir ferðir til þessara borga. Til viðbótar hefur Icelandair fengið úthlutaða lendingar- og brottfarartíma, svokölluð slott, fyrir fjölda flugferða í viku hverri sem telja má víst að aldrei verði farnar. Þetta leiðir samanburður Túrista í ljós á annars vegar sumaráætlun Icelandair og hins vegar sumaráætlun Isavia.

Flest slottin liggja utan háannatíma flugvallarins, þ.e. um miðjan morgun eða um kaffileytið. Þarna eru þó líka að finna brottfarir á tímum sem WOW air sóttist eftir fyrir sex árum síðan. Í framhaldinu úrskurðaði Samkeppniseftirlitið að Icelandair skyldi láta keppinautinn fá tvo afgreiðslutíma að morgni og tvo seinnipartinn.

Hæstiréttur felldi svo þann úrskurð úr gildi og tók þar með undir málatilbúnað Icelandair og Isavia sem vísuðu til alþjóðlegra reglna sem kveða á um hefðarétt flugfélaga á afgreiðslutímum.

Sá réttur fellur þó úr gildi ef slottin eru ekki nýtt í átta af hverjum tíu tilvikum. En sem fyrr segir þá gerir núverandi sumaráætlun Icelandair ekki ráð fyrir nándar nærri eins mörgum flugferðum og félagið hefur fengið tíma fyrir á Keflavíkurflugvelli.

Aðspurð um öll þau slott sem stefnir í að verða ekki nýtt í sumar þá segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að félagið muni nota alla úthlutaða brottfarar- og komutíma á háannatíma. Segir hún að þar sé fyrst og fremst horft til brottfara þegar flestar ferðir eru á dagskrá, frá rúmlega sjö til átta á morgnana.

Sem dæmi um misræmið sem ríkir núna á milli sumaráætlunar Keflavíkurflugvallar og Icelandair þá má nefna að flugfélagið er með leyfi fyrir 75 áætlunarferðum héðan föstudaginn 26. júní. Flugáætlun Icelandair geri þó aðeins ráð fyrir 57 ferðum þennan dag. Af þessum átján slottum sem út af standa eru fimm á háannatíma seinnipartinn og eitt korter í átta að morgni.

Allt eru þetta tímasetningar sem WOW air sóttist eftir því að fá á sínum tíma. Ásdís vill þó ekki meina að Icelandair sé í raun að takmarka aðgengi annarra að Keflavíkurflugvelli með því að sitja á afgreiðslutímum sem ekki eru lengur inn á áætlun félagsins. Máli sínu til stuðnings bendir Ásdís Ýr á að töluvert sé af lausum afgreiðslutímum á flugvellinum.

Og eftir fall WOW air er ljóst að það er nægt pláss á flugbrautunum við Leifsstöð stóran hluta dagsins en þó ekki á þessum vinsælustu tímum að morgni og seinnipartinn. Þar eru þó nokkur slott sem Icelandair mun ólíklega nota sem fyrr segir. Í því ljósi gæti sú staða komið upp að forsvarsfólk endurreisnar WOW air eða Play gætti sótt um þessa sömu tíma. Þá yrði Icelandair annað hvort að bæta við flugferðum til að nýta slottin eða gefa þau eftir til nýrra keppinauta. Um leið gæti Icelandair séð á eftir afgreiðslutímunum til langrar framtíðar í ljósi hefðaréttarins sem gildir um afnotin.

Þess ber þó að geta að aðeins þeir sem eru með flugrekstrarleyfi geta sótt um slott á flugvöllum. Ennþá er Play ekki komið með slíkt leyfi og forsvarsfólk WOW hefur ekkert viljað gefa neinar upplýsingar um þess háttar formsatriði.