Skarðið sem WOW skyldi eftir sig fyllt að litlu leyti

Síðustu sumarvertíð WOW air flugu þotur félagsins til þrjátíu og fjögurra erlendra flugvalla. Komandi sumaráætlun Keflavíkurflugvallar gerir aftur á móti ráð fyrir engum eða færri ferðum til tuttugu og sjö þessara staða.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Stjórnendur Icelandair og WOW air ætluðu sér stóra hluti árið 2018 og samkeppnin þeirra á milli jókst verulega þegar leið á árið. Þar vó þungt ákvörðun Icelandair um að elta helsta keppinaut sinn til Dublin, Berlínar, Baltimore og San Francisco. Síðan fóru bæði félög af stað með áætlunarflug til Dallas og Cleveland og héldu sitt í hvoru lagi til nokkurra borga í viðbót.

Þegar þarna var komið við sögu hafði WOW air aftur á móti ekki ennþá gefið út upplýsingar um taprekstur ársins 2017 og síðar kom í ljós að flugfélagið hafði ekki staðið skil á flugvallargjöldum til Isavia svo mánuðum skipti. Hjá Icelandair var reksturinn einnig á niðurleið og sagði forstjóri félagsins, Björgólfur Jóhannsson, starfi sínu lausu í ágúst 2018. Í framhaldinu hófst svo umtalað skuldabréfaútboð WOW air. Bæði félög voru rekin með miklu tapi þetta örlagaríka ár og ennþá er rekstur Icelandair í mínus.

Þessi harða samkeppni íslensku félaganna fyrir tveimur árum síðan kom þó íslenskum og erlendum farþegum til góða. Aldrei hafa jafn margir Íslendingar haldið út í heim og árið 2018 og þá komu hingað miklu fleiri ferðamenn en áður. Þessi met verða ólíklega bætt í bráð og alveg örugglega ekki nú í sumar. Framboð á flugsætum er einfaldlega ekki það mikið eins og sést til að mynda á því hversu stórt skarð WOW air skyldi eftir sig.

Sumarið 2018 flugu þotur WOW þannig reglulega til þrjátíu og fjögurra erlendra flugvalla og þar af var félag eitt um ferðirnar til níu áfangastaða samkvæmt talningum Túrista. Dusseldorf í Þýskalandi sú eina af þessum níu borgum sem verður hluti af dagskrá Keflavíkurflugvallar í sumar. Til borgarinnar flýgur Icelandair í dag en ákvörðunin um flugið til Dusseldorf var engu að síður tekin nokkru áður en WOW fór í þrot. Ekkert flugfélagið hefur tekið upp þráðinn sem WOW skyldi eftir sig í hinum borgunum átta.

Til viðbótar gafst Icelandair upp á San Francisco og Cleveland þrátt fyrir að sitja eitt að fluginu eftir fall keppinautarins. Reyndar skrifaðist brotthvarfið frá þeirri síðarnefndu á kyrrsetningu MAX þotanna og kannski hefði Icelandair bætt við ferðum til áfangastaða WOW air Boeing þoturnar hefðu ekki reynst gallaðar.

Sem fyrr segir þá bauð WOW air upp á ferðir til þrjátíu og fjögurra borga sumarið 2018. Til Dusseldorf, Parísar, Mílanó, Kaupmannahafnar og Amsterdam hefur flugferðunum fjölgað síðan þá. Aftur á móti hefur allt flug lagst af á tólf þessara flugleiða og samdráttur orðið á öðrum fimmtán. Flugferðirnar til Stokkhólms og Toronto verða aftur á móti jafn margar í sumar og þær voru fyrir tveimur árum síðan.

Þess má geta að þeir sem styrkja útgáfu Túrista mánaðarlega fá síðar í dag senda nánari úttekt á því hvernig flug hefur þróast á þeim flugleiðum sem WOW air sinnti. Smelltu hér ef þú vilt bætast í hóp viðtakenda.