Smíðaverkstæði í stað hótels

Ekkert verður af áformum um að reisa hótel á vegum dönsku hótelkeðjunnar Guldsmeden út á Granda.

Hugmyndir að nýtingu Allicante hússins og lóðarinnar í kring samkvæmt tilboði Skipan. Tölvuteikning: Skipan

Nú er unnið að því að breyta Héðinshúsinu við Seljaveg út á Granda í 195 herbergja hótel sem tekið verður í notkun síðar í ár. Á lóðinni við hliðina, þar sem Alliance húsið svokallaða stendur við Grandagarð 2, átti jafnframt að koma hótel. Úr því verður ekki því vegna vanefnda þá ætlar Reykjavíkurborg að rifta samningi sem gerður var um sölu á húseignunum. Í staðinn verður gengið til samninga við félagið Skipan sem átti næst hæsta tilboðið samkvæmt því sem fram kemur í Morgunblaðinu.

Þau áform sem væntanlegur eigandi Alliance hússins kynnti í útboðinu á sínum tíma gera ekki ráð fyrir hótelrekstri. Í staðinn á að innrétta þar stúdendaíbúðir, hefðbundnar íbúðir, skrifstofur, veitingastað og smíðaverkstæði.

„Stór hluti jarðhæðarinnar verður frátekinn fyrir veglegt smíðaverkstæði, opið almenningi, ekki ósvipað hugmyndafræði Fab Lab. Þar gætu fyrirtæki á svæðinu og aðrir borgarbúar greitt fyrir aðild og nýtt sér aðstöðuna. Smíðaverkstæðið væri segull og sérstaða hússins og gæfi hinum fjölbreyttu fyrirtækjum Grandans aðstöðu í gæða smíðaverkstæði til að þróa sínar hugmyndir. Í tengslum við smíðaverkstæðið væri viðgerðarverkstæði þar sem hægt væri að yfirfara og laga húsgögn og stunda aðrar smáviðgerðir eins og aðstaðan leyfir,“ segir í tilboði félagsins Skipan um kaup á Alliance húsinu.

Í tilboðinu er reyndar þeim möguleika haldið opnum að nýta stúdentaíbúðirnar sem sumarhótel í anda þess sem þekkst hefur á Gamla garði við Háskóla Íslands.