Sumarið þegar fjögur íslensk félög héldu úti milli­landa­flugi

Nú er Icelandair eina félagið sem eftir er af þeim fjóru íslensku sem héðan flugu sumarið 2012. Það er þó ekki útlilokað að fjöldinn fari aftur upp á ný enda virðast alltaf einhverjir tækifæri í að skora Icelandair á hólm.

Í sumar­byrjun 2012 fór WOW air jómfrú­ar­ferð sína og bættist þá í hóp tólf annarra félaga sem á þessum tíma héldu uppi reglu­legu flugi til og frá landinu. Þeirra á meðal voru Icelandair, Iceland Express og Primera Air sem öll voru í eigu Íslend­inga. Reyndar var WOW air á þessum tíma ekki með flugrekstr­ar­leyfi og Iceland Express sótti aldrei um þessa háttar leyfi. Fyrir­tækin tvö voru engu að síður umsvifa­mikil í milli­landa­fluginu þetta sumar.

Þannig flugu þotur Icelandair 5184 ferðir til og frá Kefla­vík­ur­flug­velli yfir sumar­mán­uðina þrjá og Iceland Express stóð fyrir 822 ferðum en WOW 495 samkvæmt taln­ingum Túrista. Flug­ferðir Primera takmörk­uðust nær eingöngu við leiguflug fyrir ferða­skrif­stofur, þar á meðal systu­fé­lagið Heims­ferðir.

Sumar­ver­tíðin 2012 reyndist eigendum Iceland Express og WOW air dýrkeypt. Síðar viður­kenndi Skúli Mogensen, sem þá var einn af þremur eigendum WOW air, að hann hafi íhugað alvar­lega að stöðva rekst­urinn á þessum tíma. „Fyrsta sumarið var mun erfiðara en við gerðum ráð fyrir og við töpuðum um 800 millj­ónum fyrsta sumarið í stað 200–300 millj­ónum eins og við áætl­uðum,” sagði Skúli við Viðskipta­blaðið í árslok 2017.

Hann setti að lokum hálfan milljarð króna í viðbót í WOW air sem svo tók yfir rekstur Iceland Express í október 2012. Sú yfir­taka var vendipunktur í rekstri WOW samkvæmt Skúla enda höfðu félögin tvö verið í „miklum slag” sumarið áður.

Síðan liðu nokkur ár þar sem þrjú íslensk flug­félög héldu úti alþjóða­flugi héðan. Primera Air var þó með sitt flugrekstr­ar­leyfi í Lett­landi en félagið var engu að síður hluti af íslensku eign­ar­halds­fé­lagi Andra Más Ingólfs­sonar. Haustið 2018 fór Primera Air svo í þrot og í mars í fyrra stöðv­aðist rekstur WOW air.

Icelandair er því í dag eina íslenska flug­fé­lagið á Kefla­vík­ur­flug­velli en ekki er útilokað að fleiri bætist við fyrr en síðar. Þannig virðast forsvars­menn Play ekki hafa gefið upp von um að koma félaginu í loftið á næst­unni jafnvel þó sala á sumar­ferðum sé komin vel af stað. Einnig liggur ekki fyrir hvernig staðið verður að endur­reisn WOW air og hvort félagið verði með íslenskt flugrekstr­ar­leyfi eða bara banda­rískt eða jafnvel ítalskt. Einnig hafa síðustu daga verið viðr­aðar hugmyndir um stofnun alþjóða­flug­fé­lags á Akur­eyri.

Ef öll þessi áform ganga upp þá gætu íslensku alþjóða­flug­fé­lögin fyrr en síðar orðið fjögur á ný. Það yrði óvenju­lega mikill fjöldi og sérstak­lega nú á tímum þegar umræðan hefur verið í þá átt að samein­ingar verði að eiga sér stað í evrópskum flugrekstri til að skjóta styrkari fótum undir greinina. Það hafa nefni­lega óvenju mörg evrópsk flug­félög misst flugið að undan­förnu.

Það má reyndar velta því fyrir sér hvað öll þessi nýju áform segja okkur um stöðu og ímynd Icelandair. Því þrátt fyrir örlög WOW air, Iceland Express, Primera Air þar á undan Íslands­flugs og Arnar­flugs þá virðast alltaf finnast fjár­festar sem sjá tæki­færi í að skora Icelandair á hólm. Færri fréttir berast af stofnun nýrra flug­fé­laga í mun fjöl­mennari löndum Evrópu þar sem fyrir er kannski bara eitt flug­félag í eigu heima­manna sjálfra.

STUÐNINGUR LESENDA SKIPTIR MIKLU MÁLI FYRIR TÚRISTA. KYNNTU ÞÉR MÁLIÐ