Þotan komin í flugskýli

Boeing 757-200 þota Icelandair hefur verið flutt af flugbraut og inn í skýli við Keflavíkurflugvöll.

Mynd: Isavia

Farþegaþota Icelandair, TF-FIA, sem staðið hefur út á flugbraut við Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá því gær er komin inn í flugskýli 885 samkvæmt upplýsingum. Hjólabúnaður flugvélarinnar gaf sig við lendingu seinnipartinn í gær en um borð voru 160 farþegar auk sex manna áhafnar. Engin slys urðu á fólki.

Þar með eru báðar flugbrautirnar við Keflavíkurflugvöll auðar á ný en næstu klukkutíma eru sextán flugtök og tíu lendingar á dagskrá. Allar þessar ferðir eru á áætlun samkvæmt heimasíðu flugvallarins.

Líkt og áður hefur komið fram þá gæti rannsókn á atvikinu í gær tekið eitt til þrjú ár og verða flugritar vélanna meðal annars skoðaðir.