Þurfa að borga 4,9 milljarða króna í lok þessarar vinnuviku

Á föstudaginn rennur út frestur Berjaya samsteypunnar að gera upp kaup sín á 75 prósent hlut í Icelandair hótelunum. Rekstur þeirra versnaði í lok síðasta árs.

Frá Canoby hótelinu í miðborg Reykjavíkur en það er hluti af Icelandair hótelunum. Mynd: Icelandair hótelin

Stuttu fyrir áramótin síðustu tilkynnti Icelandair Group að þau skilyrði sem samið var um vegna sölu á hótelum samsteypunnar hefðu að mestu verið uppfyllt. Í tilkynningunni kom jafnframt fram að gert væri ráð fyrir að gengið yrði frá viðskiptunum í lok febrúar í ár en ekki í árslok 2019 eins og upphaflega hafði verið stefnt að. „[L]okagreiðsla að fjárhæð um 4,9 milljarðar (40 milljónir bandaríkjadala) verður greidd þann 28. febrúar 2020,“ sagði í tilkynningu.

Kaupandinn, Berjaya Land Berhad, sem er skráð félag í Malasíu, þarf því í lok þessarar viku að reiða fram þessa tæpu fimm milljarða króna. Um leið eignast fyrirtækið 75 prósent hlut í hótelum Icelandair en seljandinn heldur eftir fjórðungs hlut.

Ef forsvarsfólki Berjaya snýst aftur á móti hugur fyrir lok vikunnar og hættir við kaupin þá tapar malasíska félagið svokallaðri vanefndagreiðslu upp á 1,2 milljarðar króna.

Það kom fram í máli forsvarsfólks Icelandair Group, á síðasta afkomufundi samsteypunnar, að rekstur hótelanna hefði þyngst í lok síðasta árs. Hvort að sú staðreynd og jafnvel útbreiðsla kórónaveirunnar hafi dregið úr áhuga Berjaya á íslenskum hótelrekstri kemur í ljós fyrir vikulok.

Þess má geta að Icelandair hótelin eru ekki eina milljarða fjárfesting malasíska fyrirtækisins hér á landi því félagið á einnig stóra vöruskemmu við Reykjavíkurhöfn þar sem vonir standa til að hægt verði að reisa fyrsta Four Season hótelið í Norðurlöndum. Forsenda fyrir því að það gangi upp er að skipulagi svæðisins verði breytt og veitt verði heimild fyrir nýrri hótelbyggingu á svæðinu.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ ÚTGÁFU TÚRISTA