Uppselt í páskaferðir til Kína

Bæði Heimsferðir og Vita eru með ferðir á dagskrá til Kína nú í apríl. Um miðjan þennan mánuð verður tekin ákvörðun um það hjá Heimsferðum hvort hætt verði við eða ferðinni slegið á frest.

Kínamúrinn. Mynd: Hanson Lu / Unsplash

„Við erum að sjálfsögðu áhyggjufull vegna kórónaveirunnar,“ segir Tómas J. Gestsson, forstjóri Heimsferða, aðspurður um tvær Kínaferðir sem ferðaskrifstofan hefur skipulagt nú í apríl. En flugsamgöngur til og frá Kína eru í mikilli óvissu þessa dagana vegna útbreiðslu Wuhan kórónaveirunnar. Stjórnendur Juneyao flugfélags hafa til að mynda lokað fyrir bókanir á fyrstu ferðum félagsins til Íslands í apríl.

Það er uppselt í fyrri ferð Heimsferða til Kína og verður lagt í hann að óbreyttu þann 3. apríl og komið heim tuttugu dögum síðar. Seinni ferðin er þremur dögum styttri og brottför á dagskrá 22. apríl. Ennþá eru laus sæti í hana og kostar farið 482.900 krónur.

Samtals hafa selst fimmtíu sæti í þessar tvær Kínareisur Heimsferða en sala hófst fyrir níu mánuðum síðan. Að sögn Tómasar þá hefur farþegunum verið tilkynnt að um miðjan febrúar liggi fyrir hvert framhaldið verður. Til greina komi að aflýsa ferðunum í apríl eða bjóða upp á brottfarir síðar í ár í staðinn.

Ferðaskrifstofan Vita, sem eru í eigu Icelandair Group, efnir einnig til Kínaferðar í byrjun apríl. Um er að ræða fjórtán daga ferð og er uppselt í hana.