Verð á þotueldsneyti tekur dýfu

Það hefur dregið verulega úr flugi til og frá Kína síðustu daga og í kjölfarið hefur verð á þotueldsneyti lækkað umtalsvert. Verðið í dag er töluvert undir spá Icelandair og félagið sparar sé því væntanlega töluvert í eldsneytiskaupum á næstunni. Á sama tíma gæti þróunin haldið fargjöldunum niðri.

Mynd: Aman Bhargava / Unsplash

Umtalsverður hluti af rekstrarkostnaði flugfélaga er rakinn til kaupa á þotueldsneyti. Af þeim sökum tryggja mörg flugfélög sér stóran hluta af eldsneytinu langt fram í tímann til að draga úr sveiflum. Þessa stundina borga þessi flugfélög þó töluvert yfirverð því verð á olíu hefur lækkað um fimmtung nú í ársbyrjun. Verðið hefur að ekki verið eins lágt á þessum tíma árs síðan 2015 samkvæmt frétt Reuters. Þar kemur fram að ástæðan fyrir lækkuninni skrifist á óvissuna sem kórónavírusinn veldur en verulega hefur dregið úr flugi til og frá Kína síðustu daga.

Hjá Icelandair hefur þeirri stefnu verið fylgt að um helmingur af eldsneytiskaupum félagsins hafa verið tryggð 12 mánuði fram í tímann og 6 til 8 prósent keypt með allt að 18 mánaða fyrirvara. Og til marks um kostnaðinn þá var olíureikningur félagsins um 32 milljarðar króna árið 2018 samkvæmt árssreikningi. Fimmtungur af rekstrarkostnaði félagsins var þá rakinn til eldsneytiskaupa en hlutfallið var ögn lægra árið 2017.

Verði þessi mikla verðlækkun á olíu langvarandi ætti Icelandair að spara sér verulega upphæðir í kaupum á eldsneyti. Þannig gerði áætlun félagsins, sem birt var fyrir ári síðan, að nú í byrjun 2020 yrði olíuverðið um fjórðungi hærra en það er í dag. Þá var reyndar gert ráð fyrir að í flota Icelandair væru nýjar MAX þotur sem eru mun spartneyttari en gömlu Boeing þoturnar sem félagið notar í dag. Það vegur að einhverju leyti upp á móti verðlækkuninni.

Á sama tíma má þá gera ráð fyrir að áframhaldandi lágt olíuverð haldi fargjöldum niðri því sem fyrr segir vegur eldsneytiskostnaðurinn þungt í rekstri flugfélaga. Það er skýringin á því að stjórnendur flugfélaga eru oft ákafir í að leggja á sérstakt eldsneytisgjald á farmiðaverðið þegar olíuverðið hefur hækkað umtalsvert.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT VIÐ BAKIÐ Á ÖFLUGRI TÚRISTA