WOW ræður ítalskan svæðisstjóra

Fleira fólk bætist í hóp þeirra sem eiga að leiða endurreisn WOW air.

Mynd: London Stansted

Sikiley er einn þeirra áfangastaða sem Michelle Roosevelt Edwards, stjórnarformaður nýja WOW air, horfir til líkt og áður hefur komið fram. Og nú hefur WOW ráðið Giuseppe Cataldo sem sérstakan forsvarsmann hins endurreista flugfélags á Ítalíu. Þetta kemur fram í færslu á Facebook síðu WOW air.

Hvort þetta þýði að WOW air ætli sér að notast við ítalskt flugrekstrarleyfi til að fljúga til Íslands frá Evrópu kemur væntanlega í ljós fyrr en síðar en Michelle Roosevelt Edwards mun hafa komið til Íslands fyrr í dag.

Áætlunarflug milli Íslands og Ítalíu í dag takmarkast við sumarflug Icelandair til Mílanó auk ferða á vegum Heimsferða til Verona. Þangað fljúga svo Úrval-Útsýn og Vita farþegum sínum í skíðaferðir yfir háveturinn. WOW air hélt á sínum tíma úti flugi til Mílanó og spreytti sig á sumarflugi til Rómar tvö sumur.