Bandarískir gestir í 1400 hótelherbergjum á hverri nóttu

Hið nýja flugbann Trump Bandaríkjaforseta mun vafalítið hafa mikil áhrif á íslenska hótelmarkaðinn. Hlutfall bandarískra hótelgesta er mun hærra hér en í Danmörku.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Flugsamgöngurnar milli Íslands og Bandaríkjanna eru mun tíðari en frá Bandaríkjunum til hinna Norðurlandanna. Hlutfall bandarískra ferðamanna hér er því nokkur hærra en hjá frændþjóðunum sem endurspeglast í hóteltölfræði norrænna hagstofa. Þannig stóðu Bandaríkjamenn undir rúmlega 45 þúsund gistinóttum á dönskum hótelum í apríl í fyrra hér á landi voru þær ríflega 68 þúsund.

Vægi bandarísku gestanna var rétt um 8 prósent í Danmörku þegar horft er til hótelgistinga útlendinga en um fjórðungur hér. Hið nýja flugbann milli Bandaríkjanna og földa Evrópuríkja, þar á meðal Íslands, hefur því líklegast mun dýpri áhrif á íslenska ferðaþjónustu en danska.

Bannið tekur gildi á miðnætti á morgun og gildir í þrjátíu daga eða fram að páskum. Og til að reyna að meta hversu mikil áhrifin eru þá getum við horft til gistinátta Bandaríkjamanna á íslenskum hótelum í mars og apríl í fyrra. Á því tímabili stóðu þeir undir nærri 2800 gistinóttum á hverjum sólarhring og ef við gefum okkur að bandarísku gestirnir hafa flestir deilt tveggja manna herbergi þá jafngildir það því að þeir hafi sofið í um fjórtán hundruð hótelherbergjum á hverjum sólarhring.

Langflestir þeirra eða 62 prósent gistu á hótelum á höfuðborgarsvæðinu. Fimmtungur gisti á Suðurlandi og rétt um helmingi færri á Suðurnesjum. Hlutfallið var um þrjú prósent á Norður- og Austurlandi og um einn af hundraði á Vestfjörðum.

Tölurnar fyrir mars og apríl í ár hefðu verið nokkru lægri þar því WOW air var í loftinu í mars í fyrra og Delta var þá líka með ferðir hingað. Samdráttur var því fyrirséður en nú er ljóst að hann verður gríðarlega mikill vegna hinnar nýju tilskipunnar Trump Bandaríkjaforseta.

Það mun svo eitthvað vega upp á móti að Icelandair ætlar að halda flugi áfram til Bandaríkjanna þessa þrjátíu daga. Þá verður flogið með frakt og þá Bandaríkjamenn sem áfram mega fljúga til heimalandsins. Samkvæmt tilkynningu frá Icelandair verðum ferðum því haldið áfram til New York, Seattle, Chicago og Washington borgar. Allt flug til Boston, Denver, Minneapolis og Orlando verður fellt niður.

Þess ber að geta að Hagstofan hefur ekki birt upplýsingar um gistinætur eftir þjóðernum þegar kemur að öðrum gistikostum en hótelum. En eins og gefur að skilja þá vega bandarískir gestir líka þungt á gistiheimilum, farfuglaheimilum, í heimagistingu og víðar.