Átján brottförum aflýst í dag

Frá Keflavíkurflugvelli hefðu í dag átt að vera fjörutíu og þrjár áætlunarferðir. Nú hefur átján þeirra verið frestað.

MYND: ISAVIA

Það hefur sannarlega dregið mjög úr flugsamgöngum síðustu daga í takt við að fleiri ríki loka landamærum eða takmarka ferðir þegna sinna. Nú í morgunsárið hefur átján af brottförum dagsins frá Keflavíkurflugvelli verið aflýst en fyrir viku síðan voru aðeins tvær ferðir felldar niður.

Eins og gefur að skilja er staðan álíka og jafnvel verri á flugvöllum í löndunum í kringum okkur. Þannig var um helmingur starfsmanna Kaupmannahafnarflugvallar sendur heim í byrjun vikunnar vegna þess hve dregið hefur úr umferðinni þar. Munar þar miklu um að SAS hefur lagt niður stóran hluta af sinni starfsemi. SAS er umsvifamesta flugfélagið á flugvellinum við Kastrup en Icelandair var í níunda sæti á þeim lista í fyrra.

Icelandair hefur aftur á móti dregið mun minna úr flug en mörg önnur evrópsk flugfélög. Forstjóri félagsins segir að leiðakerfi félagsins sé endurmetið á hverjum degi.