Biðja starfsmenn um að taka á sig 20 prósent launalækkun

Vegna krísunnar sem kórónaveiran hefur valdið í fluggeiranum þá hafa æðstu yfirmenn SAS ákveðið að lækka laun sín tímabundið um fimmtung. Þeir biðla nú til undirmanna sinna að sætta sig við sömu skerðingu en þó gegn minni vinnu.

Mynd: SAS

Útbreiðsla kórónaveirunnar hefur valdið þungum búsifjum í fluggeiranum enda hefur dregið verulega úr bókunum. Af þeim sökum hefur fjöldi flugferða verið felldur niður og ekki sér fyrir endann á áður boðuðum niðurskurði. Það á meðal annars við um Icelandair en í morgun tilkynnti félagið að líklega yrði gripið til frekari aðgerða vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Hjá skandinavíska flugfélaginu SAS hefur líka verið gripið til þess ráðs að draga úr flugumferð. Það eitt dugar þó ekki til að koma félaginu í gegnum erfiðleikana að mati stjórnenda fyrirtæksins. Af þeim sökum lækkaði sjö manna framkvæmdastjórn SAS laun sín í dag um tuttugu prósent.

Í kjölfarið var sendur út tölvupóstur til allra starfsmanna SAS þar sem óskað er eftir því að þeir taki á sig sömu tekjuskerðingu en þó gegn því lækka starfshlutfall sitt um sama hlutfall. Gert er ráð fyrir að um sé að ræða tímabundna aðgerð til næstu þriggja mánaða. Þess ber að geta að stjórnendurnir sjálfir ætla ekki að draga úr vinnu heldur vinna áfram fullt starf en þó fyrir lægri laun.

Forsvarsfólk SAS hefur boðið fulltrúum stéttarfélaga starfsmanna til fundar við sig til að ræða þetta tilboð samkvæmt því sem segir í frétt Dagens Industri í Svíþjóð. Þar kemur fram að flugfélögin Emirates og Lufthansa hafi bæði boðið starfsmönnum sínum tímabundið launalaust leyfi vegna stöðunnar sem nú er uppi.

NÚ GETUR ÞÚ STUTT ÚTGÁFU TÚRISTA