Danir og Svíar ábyrgjast SAS í krísunni

Skandinaviska flugfélagið fær samanlagt 43 milljarða lánaábyrgð frá danska og sænska ríkinu. Löndin tvö eru stærstu hluthafarnir í fyrirtækinu.

Rickard Gustafson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

Það var á sunnudaginn sem Rickard Gustafson, forstjóri SAS, tilkynnti að félagið myndi draga úr nær allri flugumferð og senda níu af hverjum tíu starfsmönnum heim vegna krísunnar sem útbreiðsla kórónaveirunnar hefur valdið. Hann lagði þó áherslu á að hann vonaðist til að ekki kæmi til endanlegra uppsagna.

Tveimur sólarhringum síðar liggur nú fyrir að tveir stærstu hluthafarnir í flugfélaginu, danski og sænski ríkissjóðurinn, ætla að ábyrgjast lánveitingar til SAS upp á 3 milljarða sænskra króna í ár. Það jafngildir nærri 43 milljörðum íslenskra króna.

Í fréttatilkynningum frá dönsku og sænsku ríkisstjórninni er mikilvægi SAS fyrir samgöngur til og frá löndunum ítrekað og einnig í innanlandsflugi. Þar er þess einnig getið að frekari stuðningur við flugfélagið gæti verið nauðsynlegur fyrr en síðar.

Til samanburðar má geta að SAS flutti nærri 30 milljón farþega í fyrra á meðan 4,4 milljónir nýttu sér ferðir Icelandair. Ef íslenska ríkið ætlaði að veita Icelandair sambærilega ábyrgð, í farþegum talið, þá yrði upphæðin að nema rétt rúmum 6 milljörðum króna.

Sænska ríkið ætlar ekki aðeins að styðja við SAS því allt að 3,5 milljarðar sænskra króna, um 50 milljarðar íslenskra, renna til annarra flugrekanda í landinu. Þar horft til ólíkra fyrirtækja í þeirra atvinnugrein, ekki bara þeirra sem stunda farþegaflug.