Danir og Svíar ábyrgjast SAS í krís­unni

Skandinaviska flugfélagið fær samanlagt 43 milljarða lánaábyrgð frá danska og sænska ríkinu. Löndin tvö eru stærstu hluthafarnir í fyrirtækinu.

Rickard Gustafson, forstjóri SAS. Mynd: SAS

Það var á sunnu­daginn sem Rickard Gustafson, forstjóri SAS, tilkynnti að félagið myndi draga úr nær allri flug­um­ferð og senda níu af hverjum tíu starfs­mönnum heim vegna krís­unnar sem útbreiðsla kóróna­veirunnar hefur valdið. Hann lagði þó áherslu á að hann vonaðist til að ekki kæmi til endan­legra uppsagna.

Tveimur sólar­hringum síðar liggur nú fyrir að tveir stærstu hlut­haf­arnir í flug­fé­laginu, danski og sænski ríkis­sjóð­urinn, ætla að ábyrgjast lánveit­ingar til SAS upp á 3 millj­arða sænskra króna í ár. Það jafn­gildir nærri 43 millj­örðum íslenskra króna.

Í frétta­til­kynn­ingum frá dönsku og sænsku ríkis­stjórn­inni er mikil­vægi SAS fyrir samgöngur til og frá lönd­unum ítrekað og einnig í innan­lands­flugi. Þar er þess einnig getið að frekari stuðn­ingur við flug­fé­lagið gæti verið nauð­syn­legur fyrr en síðar.

Til saman­burðar má geta að SAS flutti nærri 30 milljón farþega í fyrra á meðan 4,4 millj­ónir nýttu sér ferðir Icelandair. Ef íslenska ríkið ætlaði að veita Icelandair sambæri­lega ábyrgð, í farþegum talið, þá yrði upphæðin að nema rétt rúmum 6 millj­örðum króna.

Sænska ríkið ætlar ekki aðeins að styðja við SAS því allt að 3,5 millj­arðar sænskra króna, um 50 millj­arðar íslenskra, renna til annarra flugrek­anda í landinu. Þar horft til ólíkra fyrir­tækja í þeirra atvinnu­grein, ekki bara þeirra sem stunda farþega­flug.