Danir skilgreina líka nágrannalöndin sem áhættusvæði

Ísland er nú eitt þeirra landa sem Dönum er bent á að gæta varúðar ef þeir eiga þar ferð um. Danir hafa sent út álíka viðvaranir fyrir stóran hluta Evrópu.

Danska utanríkisráðuneytið gefur út gular, appelsínugular og rauðar ferðaviðvaranir. Nú er allur heimurinn undir vegna útbreiðslu kórónaveirunnar eins og sést á þessari mynd ráðuneytisins. Mynd: UD

Danska utanríkisráðuneytið skilgreinir nú Ísland sem gult áhættusvæði. Það þýðir að Danir búsettir hér á landi eða eru á ferðalagi eru beðnir um að gæta varúðar og fylgja tilmælum íslenskra stjórnvalda líkt og Mbl.is greindi frá. Þetta nýja varnaðarstig er rakið til útbreiðslu kórónaveirunnar.

Ísland bætist þar með í sífellt stækkandi hóp landa sem dönsk stjórnvöld biðla til þegna sinna um að fara varlega eigi þeir leið þar um. Bæði nágrannalöndin, Þýskaland og Svíþjóð, eru líka á þeim lista. Líka Noregur og Finnland og reyndar flest önnur Evrópulönd. Þannig eru Belgía, Holland, Frakkland og Spánn á listanum. Fjögur héruð í Ítalíu eru svo rauð áhættusvæði að mati danska utanríkisráðuneytisins en aðrir hlutar Ítalíu eru merktir sem gult svæði.

Og eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan þá er eiginlega heimurinn allur gulur um þessar mundir að mati Dana vegna kórónaveirunnar.