Einkareknir flugvellir í verri stöðu

Bretar hafa gengið einna harðast fram í einkavæðingu flughafna. Nú segja eigendurnir aftur á móti að þeir gætu þurft að loka innan fárra vikna.

Frá Gatwick flugvelli í London. Mynd: London Gatwick

Á meðan helstu flughafnir Bandaríkjanna eru allar nema ein í eigu hins opinbera þá hafa sum evrópsk ríki selt fjárfestum flugvellina sína. Sú þróun hefur reyndar verið sérstaklega gagnrýnd af forsvarsmönnum stærstu flugfélaga Evrópu sem bent hafa á að notendagjöld á flugvöllum álfunnar séu oftar en ekki hærri en vestahafs.

„Það hefur ekki verið til góðs að rekstur evrópskra flugvalla gangi út á að hámarka gróða fyrir lífeyrissjóði í Kaliforníu eða annars staðar út í heimi,” sagði Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa Group, til að mynda á blaðamannafundi í hittifyrra. Og nú þegar fluggeirinn er í meiriháttar krísu þá finna einkareknu flugvellirnir sérstaklega fyrir því samkvæmt frétt viðskiptasíðunnar Quartz.

Þar er bent á að framlög frá eigendunum, hinu opinbera, auðveldi bandarísku flugvöllunum að komast í gegnum krísuna á meðan þeir einkareknu séu í annarri stöðu. Samtök flugvalla í Bretlandi, sem flestir eru hlutafélög, kalla nú eftir framlögum frá breskum yfirvöldum til að koma megi í veg fyrir að loka verði flugstöðvum innan fárra vikna.

Þrátt fyrir það neyðaróp þá er ekki útlit fyrir að breskir ráðamenn ætli í almennar aðgerðir gagnvart flugvöllunum eða flugfélögum. Þess í stað verður litið til aðstæðna hvers og eins fyrirtækis til að meta þörfina á opinberum stuðningi.

Flugvellir í ríkiseigu hafa þó einnig orðið að bregðast við aðstæðum. Þannig sagði Swedavia í Svíþjóð upp átta hundruð starfsmönnum í vikunni og lækkaði starfshlutfall nítján hundruð starfsamanna í viðbót. Stjórnendur Avinor í Noregi hafa gefið út að þar gæti þurft að grípa til niðurskurðar og segja upp starfsfólki. Rekstrarform Swedavia og Avinor er með svipuðum hætti og Isavia hér á landi. Allt eru þetta fyrirtæki í eigu hins opinbera sem sjá um rekstur flugvalla.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.