Ekki stórar breyt­ingar á Íslands­flugi easyJet næsta vetur

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet hefur lengi verið umsvifamikið á Keflavíkurflugvelli og miðað við nýja vetraráætlun félagsins þá er útlit fyrir að svo verði áfram. Þó stefnir í að ekki verði flogið milli Íslands og Belfast næsta vetur.

Belfast City Hall
Frá Belfast. Miðað við nýja vetraráætlun easyJet þá munu þotur félagsins ekki fljúga hingað frá þeirri borg næsta vetur. Mynd: Ferðamálaráð Belfast

Nú eru átta ár liðin frá því að easyJet hóf áætl­un­ar­flug til Íslands. Til að byrja með flugu þotur félagsins hingað þrisvar í viku frá Luton við London en fljót­lega bættust við fleiri flug­leiðir. Þegar mest lét bauð easyJet upp á reglu­legar ferðir frá sjö breskum flug­völlum og tveimur sviss­neskum.

Áherslan á Íslands­flug hjá stjórn­endum breska félagsins minnkaði aftur á móti í fyrra og hittifyrra og til að mynda datt flugið frá Sviss upp fyrir.

Akkúrat núna liggur stór hluti af starf­semi easyJet niðri, líkt og annarra flug­fé­laga, vegna útbreiðslu kóróna­veirunnar. Engu að síður var sölu­fólk þess að opna fyrir bókanir á flug­miðum næsta vetrar. Og af fram­boðinu að dæma þá mun félagið halda áfram næsta vetur að fljúga hingað frá Bristol, Edin­borg, Manchester og svo flug­völl­unum Gatwick og Luton sem eru báðir í nágrenni við London.

Aftur á móti hefur easyJet ekki ennþá ekki sett í sölu áætl­un­ar­ferðir hingað frá Belfast á Norður-Írlandi. Það stefnir þar með að íbúar borg­ar­innar geti ekki lengur flogið beint til Íslands úr heima­byggð en á tíma­bili flugu bæði easyJet og Air Iceland Connect til borg­ar­innar.

Samkvæmt athugun Túrista þá gerir easyJet ráð fyrir álíka ferða­fjölda hingað næsta vetur ef frá er talin flugið frá Belfast. Þaðan flugu þotur félagsins tvisvar í viku til Kefla­vík­ur­flug­velli í vetur.