Farþegum fækkar hratt og kallað eftir aðstoð hins opinbera

Þriðjungi færri farþegar fara nú um fjölförnustu flughöfn Norðurlanda. Forstjóri flugvallarins líkir þróuninni við Seinni heimstyrjöldina. Danskir og þýskir ráðamenn funda um mögulega aðstoð við fluggeirann.

Frá Terminal 3 á Kaupmannahafnarflugvelli. Mynd: Cph

Útbreiðsla nýja kórónanvírusins hefur dregið úr verulega úr ferðalögum fólks og til marks um það hefur fjöldi farþega á Kaupmannahafnarflugvelli fallið um þriðjung síðustu daga. Þetta staðfestir Thomas Woldby, forstjóri flugvallarins, við fréttastofuna Ritzau í Danmörku. Hann segir þessa þróun ekki eiga sér langan aðdraganda og rekur hana því beint til fjölgunar Covid-19 smita í Danmörku.

„Við höfum ekki séð neitt þessu líkt síðan í Seinni heimstyrjöldinni,“ segir Woldby og bætir því við að afleiðingarnar af fækkun farþega muni hafa veruleg áhrif á fluggeirann í Danmörku og víðar. Tekjurnar dragist nefnilega saman bæði hjá flugvöllum og flugfélögum bætir forstjórinn við. Vegna stöðunnar sem nú er upp munu fimm ráðherrar ríkisstjórnar Danmerkur, þar af Mette Frederiksen, forsætisráðherra, funda nú í byrjun vikunnar um mögulega aðstoð hins opinbera.

Ferðaritið Checkin hefur það eftir samgönguráðherra landsins að það sé ekki nokkur vafi á því að útbreiðsla kórónaveirunnar geti haft mjög neikvæð áhrif á fluggeirann. Ekki bara í Danmörku og Evrópu heldur á heimsvísu. Hann segir þó að ríkisstjórnin hafi ennþá ekki tekið ákvarðanir um mögulega aðstoð.

Í Þýskalandi er einnig rætt um hvort hið opinbera eigi að styðja við flugfélögin vegna krísunnar. Ein tillaga sem forsvarsmenn Lufthansa hafa viðrað er sú að ríkið taki þátt í launagreiðslum til þeirra starfsmanna flugfélaganna sem beðnir verða um að minnka við sig vinnu. Þannig mætti komast hjá uppsögnum. Forstjóri Lufthansa segir í viðtali við Bloomberg að útbreiðsla kórónaveirunnar í Þýskalandi hafi haft gríðarleg áhrif á bókunarstöðu félagsins.

Túristi hefur óskað eftir upplýsingum frá Isavia um farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli fyrstu vikuna í mars í samanburði við sama tíma í fyrra. Sem fyrr segir nemur samdrátturinn á Kaupmannahafnarflugvelli síðustu daga um þriðjungi.