Fella niður sjöundu hverju flugferð

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian er í mikilli krísu og biðlar nú til norskra stjórnvalda. Félagið hefur ennþá ekki hafið sölu á sólarlandaflugi héðan næsta vetur.

Mynd: Norwegian

Nú í vetur hafa þotur Norwegian flogið reglulega frá Keflavíkurflugvelli til Tenerife, Las Palmas, Madrídar, Alicante, Barcelona og Óslóar. Komandi sumaráætlun félagsins gerir svo ráð fyrir áætlunarflugi héðan til Alicante, Barcelona og Ósló. Hvort brottförum á þessum flugleiðum verður fækkað á eftir að koma í ljóst því fyrr í dag tilkynntu stjórnendur Norwegian að um þrjú þúsund ferðum yrði aflýst frá og með næstu viku og fram í miðjan júní. Ástæðan er minnkandi eftirspurn í kjölfar útbreiðslu kórónaveirunnar.

Í tilkynningu frá Norwegian er haft eftir Jacob Schram, forstjóri félagins, að núverandi staða sé þung fyrir allan fluggeirann. „Við skorum á stjórnvöld að leita samstundis leiða til að draga úr fjárhagslegum skaða fyrir flugfélögin og um leið standa vörð um mikilvæga innviði og fjölda starfa,“ segir Schram. Vísar hann þar meðal annars til sérstaks flugskatts sem er í gildi í Noregi.

Schram bætir því við að vegna þess hve niðurskurðurinn er mikill að þá þurfi samhliða honum að segja upp starfsmönnum. Norwegian er ekki fyrsta stórfyrirtækið í norskri ferðaþjónustu sem grípur til þeirra ráða. Petter Stordalen, umsvifamesti hóteleigandi Noregs, hefur einnig boðað hópuppsagnir vegna þess mikla samdráttar sem nú er að eiga sér stað vegna nýju kórónaveirunnar.

Þess má geta að Norwegian hefur ennþá ekki hafið sölu á ferðum héðan til Kanaríeyja næsta vetur. Leiguflug á vegum Icelandair er því ennþá eini valkosturinn sem í boði er en þó bera að hafa huga að Tenerife er einn þeirra áfangastaða sem Play setur stefnuna á. Það fyrirtæki er þó ekki ennþá komið með flugrekstrarleyfi.