Fer frá Icelandair til Play

Þórður Bjarnason sem gegnt hefur stjórnunarstöðum hjá Icelandair Group og Primera Air er genginn til liðs við Play.

Tölvuteikning: Play

Þau áform sem forsvarsmenn Play kynntu á blaðamannafundi í Perlunni í byrjun nóvember gerðu ráð fyrir að áætlunarflug félagsins myndi hefjast nú í ársbyrjun. Ennþá er Play þó ekki komið með flugrekstrarleyfi og engar upplýsingar er að fá úr herbúðum félagsins um gang mála.

Nú herma heimildir Túrista hins vegar að Þórður Bjarnason, sem gengt hefur stjórnunarstöðum innan Icelandair Group síðustu ár, sé genginn til liðs við Play. Þórður á að baki um tuttugu ára feril í ferðþjónustu. Hann var markaðsstjóri hjá Icelandair í Evrópu á árunun fyrir hrun en gekk svo liðs við Primera Air. Þar var hann meðal annars framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs. Síðustu ár hefur hann stýrt innkaupum hjá Icelandair Group.

Þórður er ekki fyrsti starfsmaðurinn úr höfuðstöðvum Icelandair sem flytur sig yfir til Play. Það gerði líka Daníel Snæbjörnsson en hann fór fyrir leiðakerfi WOW air áður en hann réði sig til starfa hjá Icelandair í kjölfar gjaldþrots þess félags.