Ferðabann Trump í tölum

Algjört bann verður við flugi frá Íslandi og flestum öðrum Evrópurlöndum til Bandaríkjanna í þrjátíu daga frá og með miðnætti á föstudag. Ástæðan er COVID-19 veikin líkt og fram kom í tilkynningu Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í gærkvöld. Það liggur fyrir að þetta ferðabann mun hafa mikil áhrif á Icelandair og íslenska ferðaþjónustu.

Mynd: Neonbrand / Unsplash

Flugsamgöngur milli Íslands og Bandaríkjanna hafa lengi verið mjög tíðar og vægi bandarískra ferðamanna er því mjög hátt hér á landi. Frá Keflavíkurflugvelli eru farnar fleiri áætlunarferðir til bandarískra borga en frá hinum Norðurlöndunum. Í dag munu þotur Icelandair t.d. fljúga héðan til níu bandarískra flugvalla á meðan farþegum á Kaupmannahafnarflugvelli, fjölförnustu flughöfn Norðurlanda, standa til boða sex ferðir. Brottfarirnar héðan voru þó mun tíðari þegar WOW air var ennþá í loftinu.

Bandarískir ferðamenn hafa líka verið langfjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi en vægi þeirra dróst þó saman þegar WOW air var gjaldþrota. Það hafði einnig neikvæð áhrif að Delta hætti flugi hingað yfir veturinn. Engu að síður var einn af hverjum fimm ferðamönnum hér í apríl í fyrra frá Bandaríkjunum. Þá voru þeir nærri 24 þúsund talsins. Hlutfall bandarískra gistinga á íslenskum hótelum er einnig hátt. Í mars og apríl í fyrra keyptu Bandaríkjamenn um fjórðung af öllum gistingum á íslenskum hótelum og vægi þeirra hefur vafalítið líka verið hátt í öðrum gistikostum þó þær tölur liggi ekki fyrir. Til viðbótar við þetta allt þá má gera ráð fyrir að töluverður fjöldi ferðamanna frá öðrum þjóðum búi í Bandaríkjunum eða ferðist í gegnum landið á leið sinni til Íslands.

Vinsældir Íslands sem áfangastaðar er þó ekki eina ástæðan fyrir því að bandaríski markaðurinn hefur þar með verið Icelandair mikilvægur. Leiðakerfi félagsins byggir í raun á því að stór hluti þeirra sem nýtir sér ferðirnar til og frá Evrópu séu í raun farþegar á leið til Bandaríkjanna. Þeir millilenda þá aðeins hér á landi. Og vegna þess hve vægi þessara skiptifarþega hefur verið hátt í þotum Icelandair þá hefur félagið getað boðið upp á tíðar ferðir til bæði Evrópu og Norður-Ameríku. Næstu þrjátíu daga verður félagið því að troða marvaða og vafalítið fækka ferðunum til Evrópu töluvert á sama tíma og flugið til Bandaríkjanna stöðvast.

Að jafnaði flutti félagið um 3100 farþega á degi hverjum milli Íslands og Bandaríkjanna í mars og apríl í fyrra samkvæmt tölum frá bandarískum flugmálayfirvöldum. Hver farþegi er talinn á leiðinni til landsins og frá og því má segja að um fimmtán hundruð einstaklingar hafi nýtt sér ferðir Icelandair á degi hverjum til og frá Bandaríkjunum þessa tvo mánuði. Í ljósi þess að Icelandair hefur dregið úr ferðum að undanförnum má gera ráð fyrir að farþegafjöldinn hefði verið aðeins minni nú í mars og apríl en samt staðið undir umtalsverður hluta af umsvifum félagsins. Þrjátíu og níu prósent af tekjum Icelandair á síðasta ári komu frá Norður-Ameríku.