Ferðaskrifstofur bíða svara frá stjórnvöldum

Þær lausnir sem Danir og Norðmenn hafa kynnt til að koma til móts við ferðaskrifstofur í yfirstandandi krísu eru ekki í boði hér á landi. Stjórnarformaður Heimsferða segir að eina útspil stjórnvalda hafi verið bón til farþega að taka við inneignarbréfum. Hann telur þá lausn takmarkaða.

„Auk almennra aðgerða hér heima þá hafa aðeins komið tilmæli frá Neytendastofu þar sem viðskiptavinir ferðaskrifstofa eru hvattir til að þiggja inneignir hjá ferðaaðilum," segir Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður Heimsferða. Mynd: Isavia

Íslenskar ferðaskrifstofur verða að endurgreiða ferðir, sem felldar eru niður vegna útbreiðslu kórónaveirunnar, innan tveggja vikna líkt og bæði Neytendastofa og Atvinnuvegaráðuneytið gáfu út í síðustu viku. Aftur á móti gengur það hægt fyrir ferðaskrifstofurnar sjálfar að fá flugmiða endurgreidda, þar á meðal frá Icelandair, líkt og Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, fór yfir við Túrista í gær.

Að endurgreiða söluverð án þess að fá kostnaðinn tilbaka, þar á meðal farmiðaverðið, getur sett ferðaskrifstofur í erfiða stöðu. Og í nágrannalöndunum virðist ríkja meiri skilningur á því hjá stjórnvöldum að endurgreiðslukrafan geti reynst ferðaskrifstofum þung.

Jón Karl Ólafsson, stjórnarformaður Heimsferða, bendir þannig á að á hinum Norðurlöndunum og víða í Evrópu hafi stjórnvöld stigið mjög ákveðið inn í þessa stöðu og þannig muni tryggingarsjóðurinn í Danmörku taka að sér að greiða og tryggja greiðslur til viðskiptavina. „Norðmenn hafa líka tilkynnt um lausnir til að aðstoða aðila vegna sömu mála,“ bætir Jón Karl við.

Hann telur að með aðgerðunum verði komið í veg fyrir að ferðaskrifstofur í þessum löndum lendi í greiðsluvanda vegna endurgreiðslu þjónustu. Öfugt við það sem gæti gerst hér á landi og segir Jón Karl að forsvarsfólk ferðaskrifstofa hafi reynt að fá svör alla síðustu helgi um mögulega lausn, varðandi endurgreiðslur á þjónustu sem ekki er hægt að veita vegna ástandsins, en ekki fengið .

„Auk almennra aðgerða hér heima þá hafa aðeins komið tilmæli frá Neytendastofu þar sem viðskiptavinir ferðaskrifstofa eru hvattir til að þiggja inneignir hjá ferðaaðilum. Þetta mun hafa mun minni áhrif en vonast var til. Það væri einfaldast að fresta endurgreiðslum með reglugerð á meðan að þetta ástand varir. Jafnframt ber að benda á að tryggingar ferðaskrifstofa eigi að tryggja allar innistæður. Bæði þær sem koma til endurgreiðslu og einnig hinar sem verða í formi inneigna sem nota má til kaupa á ferðum þegar eftirspurn fer aftur í gang,“ segir Jón Karl að lokum.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.