Finnair dregur ekki úr ferðum til Íslands

Stjórnendur finnska flugfélagsins Finnair hafa dregið töluvert úr flugáætlun félagsins næstu vikur. Íslandsflug félagsins verður ekki fyrir barðinu á þeim niðurskurði.

finnair a
Mynd: Finnair

Stór hluti af starfsemi Finnair snýr að flugi til Asíu og undir venjulegum kringumstæðum fljúga þotur félagsins til nærri tuttugu flugvalla í þeirri heimsálfu. Allt frá því að kórónaveiran hóf að breiðast út í Kína hefur ferðunum til Austurlanda fjær þó fækkað og þar með þeim farþegum sem ætluðu að fljúga með Finnair frá Asíu til evrópskra áfangastaða. Af þeim sökum hefur Finnair dregið tölurvert úr flugi innan Evrópu og í gær var tilkynnt um niðurfellingu á fjórtán hundruð brottförum í mars og apríl.

Þar á meðal er þó ekki flug til Íslands en þotur Finnair fljúga allt að daglega hingað frá Vantaa flugvelli við Helsinki. Um borð hefur hlutfall farþega frá Asíu verið hátt enda hefur Íslandsflug Finnair notið vinsælda hjá asískum ferðamönnum líkt fram kom í svörum talsmanns félagsins í viðtali við Túrista sl. sumar.

Það er finnska ríkið sem fer með meirihluta í Finnair en stuttu fyrir hrun var FL-Group, þáverandi móðurfélag Icelandair, næststærsti eigandinn með 22 prósent hlut. Þá settist þá Sigurður Helgason, fyrrum forstjóri Icelandair, í stjórn finnska flugfélagsins fyrir íslensku eigendurna. Þeir losuðu svo sinn hlut með töluverðu tapi vorið 2008.