Finnair fellir niður níu af hverjum tíu ferðum

Nú eru flugsamgöngur í lamasessi í Evrópu og flugfélög tilkynna um gríðarlegan samdrátt. Nú í morgunsárið bættist Finnair í þann hóp.

finnair a
Mynd: Finnair

Útbreiðsla kórónaveirunnar hefur haft veruleg áhrif á eftirspurn eftir ferðalögum og þar með hafa flugfélög og ferðaskrifstofur dregið úr fjölda ferða. Lettneska flugfélagið AirBaltic leggur þannig þotum sínum næstu fjórar vikur og hjá SAS er ætlunin að halda aðeins úti ferðum til nokkurra áfangastaða.

Stjórnendur Finnair, þriðja stærsta flugfélags Norðurlanda, tilkynntu svo í morgun að félagið ætlaði að draga saman seglin um nærri 90 prósent nú þegar landamæri hafa lokast og stjórnvöld mælast til að fólk ferðist ekki milli landa.

Í tilkynningu frá Finnair segir að þessi niðurskurður gildi frá byrjun apríl og verði í gildi þar til að ástandið hefur batnað. Á þessu tímabili verður aðeins flogið til tuttugu áfangastaða og er Keflavíkurflugvöllur ekki einn þeirra.

Hjá Icelandair er útlit fyir miklu minni niðurskurð næstu vikur líkt og fram kom í tilkynningu frá félaginu í gærkvöld. Þar er þó tekið fram að staðan geti breyst hratt.