Fleiri farþegar en áður í febrúar

Á sama tíma og þeim fjölgar sem nýta sér ferðir Icelandair þá verður bekkurinn líka þéttsetnari. Sætanýtingin er þó lægri en hún var áður en vöxtur WOW hófst fyrir alvöru.

Mynd: Icelandair

Það voru rúmlega 225 þúsund farþegar um borð í þotum Icelanair í febrúar. Svo margir hafa þeir ekki áður verið í þessum mánuði og skiptir þá engu að febrúar var deginum lengri að þessu sinni.

Um helmingur þeirra sem flugu með Icelandair í síðasta mánuði voru ferðamenn á leið til landsins. Sá hópur hefur farið stækkandi allar götur síðan WOW air fór í þrot í mars í fyrra. Á móti kemur að tengifarþegum hefur fækkað.

Það er í takt við aukna áherslu stjórnenda Icelandair á erlenda ferðamenn á kostnað þeirra sem eru á leið milli Evrópu og Norður-Ameríku.

Í nýbirtum farþegatölum Icelandair kemur fram að sætanýtingin í síðasta mánuði var 76 prósent. Það er ögn betra en í fyrra en þá var reyndar WOW air ennþá í loftinu og stóð félagið þá fyrir fjórðungi ferða til og frá landinu.

Núna er Icelandair með um sex af hverjum tíu brottförum frá Keflavíkurflugvelli sem er álíka og árunum 2015 og 2016. Þá var sætanýting Icelandair aðeins hærri en núna eða 78 og 79 prósent.