Flugfélögin að verða sveigjanlegri

Nokkur af þeim flugfélögum sem fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli bjóða nú viðskiptavinum sínum að breyta flugmiðum fyrir lítið eða ekkert.

Vegna nýju kórónaveirunnar þá grípa sum flugfélög til þess að bjóða farþegum að breyta flugmiðum án aukakostnaðar. Mynd: Gerrie Van Der Walt / Unsplash

Þeir sem bóka ódýrustu fargjöld flugfélaganna hafa oft ekki möguleika á að breyta ferðadögum eða jafnvel áfangastað. Í ársbyrjun herti til að mynda Icelandair sínar reglur og tók fyrir allar breytingar á svokölluðum Economy Light farmiðum.

Útbreiðsla kórónaveirunnar síðustu vikur hefur aftur á móti valdið ört dvínandi ferðagleði sem kallað hefur á viðbrögð frá stjórnendum flugfélaganna. Síðustu daga hafa sum þeirra kynnt tímabundnar tilslakanir á skilmálum sínum og þar með geta farþegar breytt nýjum bókunum án kostnaðar.

Þannig geta þeir sem panta far með Icelandair fyrir 16. mars breytt bókuninni án þess að greiða sérstakt breytingagjald ef ferðalagið er á dagskrá fyrir 1. júní. Hjá Norwegian, sem er stórtækt í Spánarflugi frá Íslandi, er sveiganleikinn meiri. Þar fá farþegar sem bóka fyrir 22. mars rétt á að afbóka öll ferðalög fram til loka sumars. Þetta nær þó ekki til ferða Norwegian milli Íslands og Óslóar.

Hið breska British Airways gengur svo ennþá lengra því þar fá þeir sem bóka fram til 16. mars rétt á að breyta miðun án auka kostnaðar næstu 12 mánuði. Farþegar þurfa aftur á móti að borga mismuninn á nýja og gamla fargjaldinu ef það fyrrnefnda er dýrara.

Líklegt er að fleiri flugfélög fylgi í kjölfarið og kynni sveigjanlegri fargjöld til sögunnar á næstunni. En líkt og Túristi fjallaði um í byrjun vikunnar þá hafa hótelgestir lengi getað bókað sér herbergi, sem fæst endurgreitt, án mikils viðbótarkostnaðar. Öðru máli hefur gegnt um flugfélögin en nú gæti það verið að breytast.

Nú getur þú stutt útgáfu Túrista