Forstjóri Icelandair: Ekkert er óhugs­andi í dag

Möguleg aðkoma hins opinbera að rekstri Icelandair, hættan á að keppinautarnir stingi af með ríkisstyrki í vasanum og staðan á sölu Icelandair hótelanna. Túristi ræddi við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair Group, um þessi atriði og fleiri.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group. Myndir: Icelandair

Forstjórar flug­fé­laga víða um heim hafa ekki farið leynt með það síðustu daga að fyrir­tækin þeirra standa tæpt. Þú hefur aftur á móti ítrekað sterka lausa­fjár­stöðu félagsins og Icelandair hefur skorið niður hlut­falls­lega miklu færri ferðir en mörg önnur flug­félög. Er staða Icelandair virki­lega svona góð miðað við flug­félög eins og SAS, Luft­hansa og British Airways?

„Við höfum gert þetta með öðrum hætti og við förum inn í þetta ástand með sterka lausa­fjár­stöðu og vorum vel undir­búin að því leytinu til. Við lifum að öllu óbreyttu í þrjá mánuði tekju­laus. Ef þetta dregst á langinn þá þarf að grípa til annarra aðgerða og við erum að bíða eftir útspili ríkis­stjórn­ar­innar varð­andi vinnu­mark­aðinn sem kemur vænt­an­lega á morgun. Í fram­haldinu munum við grípa til aðgerða til að lækka launa­kostnað,” segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, um ólíkan tón í máli hans síðustu daga í saman­burði við forstjóra margra annarra flug­fé­laga.

„Varð­andi leiða­kerfið þá erum við að draga það saman smátt og smátt dag frá degi og mæta þannig þeirri eftir­spurn sem er til staðar, í stað þess að gefa út 80 til 90 prósent niður­skurð strax í byrjun eins og mörg félög hafa gert. Í dag, miðvikudag, erum við að fljúga tæplega 60 prósent af áætluðu leið­ar­kerfi og það mun að öllum líkindum minnka hratt á næstu dögum,” bætir Bogi við.

Þið gáfuð út á sunnu­dags­kvöldið að fyrirséð væri að sumaráætl­unin myndi dragast saman um fjórðung. Þar skerið þið ykkur aftur frá keppi­naut­unum sem hafa lítið gefið út um hvernig sumarið kemur til með að vera. Af hverju setjið þið strax tölu á niður­skurð sumarsins?

„Við erum að vinna með að samdrátt­urinn í sumar verður að minnsta kosti 25 prósent, miðað við það sem áður var áætlað. Niður­skurð­urinn gæti orðið enn meiri og við erum að undirbúa okkur fyrir það en á sama tíma að halda sveigj­an­leik­anum ef eftir­spurnin verður til staðar,” svarar Bogi.

Snúum okkur aftur að fjár­hags­stöð­unni. Þið hafið áréttað að Icelandair hafi um 300 millj­ónir dollara í lausafé (um 42 millj­arðar króna). Eru fyrir­fram­greiðslur frá kred­it­korta­fyr­ir­tækjum, sem mögu­lega þarf að endur­greiða, hluti af þessari upphæð?

„Stór hluti þess sem við höfum fengið greitt frá kred­it­korta­fyr­ir­tækjum er vegna ferða­laga í sumar þannig að endur­greiðslur vegna fluga núna eru hlut­falls­lega ekki miklar,” segir forstjórinn.

En er hætta á að lána­samn­ingar gjald­falli í núver­andi stöðu og ríkið þurfi að tryggja þá?

„Eins og staðan er í dag erum við í skilum og það hafa engin kvaða­brot verið á samn­ingum,” undir­strikar Bogi.

Nú rær Norwegian, einn af ykkar helstu keppi­nautum, lífróður og vanga­veltur um hvort norska ríkið leggi flug­fé­laginu til hlutafé. Dönsk og sænsk stjórn­völd fara með stóran hlut í SAS og finnska forsæt­is­ráðu­neytið á 55 prósent í Finnair. Er óhugs­andi að Icelandair verði að hluta til í eigu íslenska ríkisins í sumar?

„Í þessum aðstæðum sem nú eru, sem allur heim­urinn er að takast á við, þá er ekkert óhugs­andi. Það sem er að gerast í dag var fjar­lægur mögu­leiki í síðustu viku.”

Svar Boga er á svipaða leið varð­andi hugmyndir fyrrum fram­kvæmda­stjóra hjá SAS um að sameina norrænu flug­fé­lögin fjögur. „Það er ekkert óhugs­andi í þessum málum og margar hugmyndir á borðum. Þetta er þó ekki komið á það stig ennþá.”

Nú hafa stóru banda­rísku flug­félög verið rekin með hagnaði síðast­liðinn áratug eða svo. Taprekstur Icelandair nam aftur á móti samtals 14 millj­örðum síðustu tvö ár. Banda­rísku félögin hafa engu að síður sóst eftir fyrir­greiðslum hjá hinum opin­bera og fleiri stór flug­félög út í heimi hafa óskað eftir ríkis­að­stoð. Þið hafið alla vega ekki opin­ber­lega óskað eftir sér aðgerðum. Er enginn þörf á þeim?

„Það á eftir að koma í ljós hvernig almennu aðgerð­irnar verða hér á landi en við erum í góðu samtali við hið opin­bera og förum yfir stöðuna mjög reglu­lega. Icelandair er kerf­is­lega mikil­vægt fyrir­tæki og við erum í miklum og góðum samskiptum við ríkis­stjórnina.”

Þú óttast ekki að keppi­nautar ykkar fái tölu­vert forskot á ykkur ef þeir fá háa ríkis­styrki en þið ekki og hafið þið þá bolmagn til að blása til sóknar þegar ástandið verður eðli­legra?

„Það liggur ekki fyrir hvernig þetta verður annars staðar, nema hjá SAS. Þó að ráða­menn annars staðar hafi viðrað stuðning þá hef ég ekkert séð ennþá. Markmið okkar er að fara í gegnum þetta og fyrir­tækið hefur reynslu að fara í gegnum erfið­leika,” segir Bogi.

En ef aðrir fá stuðning en þið ekki hvað þýðir það fyrir ykkur?

„Það er erfitt að segja til um það núna og ég ítreka að við erum í góðu samtali við stjórn­völd.”

Isavia hefur fellt niður notenda­gjöld á Kefla­vík­ur­flug­velli tíma­bundið vegna ástandsins sem nú er. Vonast þú til að ríkið veiti fluginu frekari aðstoð í gegnum eign­ar­hlut sinn í Isavia, t.d. með lægri gjöldum?

„Niður­felling á notenda­gjöldum hefur lítið að segja akkúrat í dag þegar traffíkin er lítil. En við vonum að þessi breyting gildi til lengri tíma því það mun hjálpa til við að auka framboð á flugi og styrkja eftir­spurn. Við höfum áður ítrekað mikil­vægi þess að stjórn­völd lækki skatta og gjöld til þess að tryggja samkeppn­is­hæfni Íslands sem ferða­manna­lands.”

Þið selduð í lok síðasta árs 75 prósent hlut í Icelandair hótel­unum og hafið nú þegar fengið stærsta hluta kaup­verðsins greiddan. Er hætta á að þessi samn­ingur gangi úr gildi vegna stöð­unnar?

„Selj­andinn hefur greitt stærsta hluta kaup­verðsins og ef eitt­hvað kæmi upp á, sem yrði til þess að kaup­andinn myndi hætta við, þá höldum við eftir um 20 millj­ónum dollara (2,8 millj­arðar kr.). Í dag er ekkert sem bendir til annars en að kaupin gangi eftir,” segir Bogi að lokum.


Kæri lesandi, ef þú vilt styðja við útgáfu Túrista þá smellir þú hér