Fulltrúar Valitor, Íslandsbanka og CIT orðnir innherjar hjá Icelandair

Síðustu daga hefur innherjalisti Icelandair samsteypunnar lengst hjá Fjármálaeftirlitinu.

Mynd: Icelandair

Í þessari viku hafa nöfn fimm starfsmanna, hjá þremur fjármálafyrirtækjum, bæst við lista Fjármálaeftirlitsins yfir innherja hjá Icelandair Group. Tveir þeirra eru sérfræðingar Valitor en það fyrirtæki er færsluhirðir Icelandair.

Það þýðir að Valitor ber ábyrgð gagnvart farþegum á öllum greiðslukortabókunum. Það er svo sérfræðinga Valitor að leggja mat á hversu hátt hlutfall af sölu ónotaðra farmiða Icelandair fær til ráðstöfunar. Sem dæmi má nefna að WOW air fékk fyrst söluverð farmiðanna eftir að farþegarnir voru komnir heim. Færsluhirðir flugfélagsins mat hættuna á rekstrarstöðvun félagsins það mikla.

Starfsmenn í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka eru líka nýir á lista yfir innherja hjá Icelandair. Á heimasíðu Íslandsbanka segir að fyrirtækjaráðgjöf bankans hafi umsjón með kaupum, sölu, yfirtöku og samruna fyrirtækja. Hlutafjárútboð eru einnig eitt af sérsviðum deildarinnar.

Þriðja fyrirtækið sem hefur fengið fulltrúa á lista Icelandair er CIT Bank. Sá banki lánaði Icelandair samtals um átta milljarða króna í desember síðastliðnum. Um var að ræða endurfjármögnun vegna uppgreiðslu skuldabréfaflokka félagsins fyrr á þessu ári.

Aðspurð um skýringar á þessum nýju viðbótum við innherjalista Icelandair þá segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagins, að þau tjái sig ekki um einstaka innherja hjá félaginu né ástæðu fyrir veru viðkomandi á innherjalista. „Það er hins vegar eðlilegt að fulltrúar frá fjármögnunaraðilum og ráðgjafar séu á innherjalista hjá skráðum félögum.“

Eins og öllum er ljóst þá er hefur staðan í heimsbúskapnum versnað gríðarlega síðustu vikur vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Sú staða hefur komið sérstaklega illa niður á flugfélögum enda hafa landamæri lokast og ferðabann ríkir víða. Stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum hafa í vikunni tilkynnt um stuðning við flugrekstur í sínum löndum, til dæmsi með lánaábyrgðum. Ennþá hafa þess háttar sér aðgerðir ekki verið boðaðar hér á landi.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar á virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem þykir gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.