Grænt ljós á ríkisstuðning við flugfélög

Eftirlitsstofnun EFTA hefur ekki athugasemdir við áform norska stjórnvalda að styðja sérstaklega við fluggeirann þar í landi. Þar með gæti verið komið fordæmi fyrir íslensk stjórnvöld.

Það eru Norwegian og SAS sem munu fá stærstan hluta af þeirri upphæð sem norsk stjórnvöld hafa nú fengið leyfi til að veita til flugreksturs í landinu. MYND: AVINOR

ESA, eftirlitstofnun EFTA, gefur samþykki sitt fyrir því að flugrekendur í Noregi frá stuðning frá hinu opinbera til að styrkja lausafjárstöðu sína vegna þess vanda sem útbreiðsla kórónaveirunnar hefur valdið. Þetta kemur fram í umsögn stofnunarinnar um áform norskra stjórnvalda að ábyrgjast lán upp á 6 milljarða norskra króna til flugrekenda þar í landi. Það jafngildir um 80 milljörðum íslenskra króna.

Helmingur þessarar upphæðar er ætlaður Norwegian en félagið verður þó að uppfylla ströng skilyrði um lækkun skulda og aukið eigið fé til að fá aðgang að stærstum hluta fjárhæðarinnar. Fjórðungur rennur svo til SAS en afgangurinn til minni flugfélaga, t.d. þeirra sem sinna innanlandsflugi.

Í tilkynningu sem birt var á vef ESA nú í morgun segir að eftirspurn eftir flugferðalögum í Noregi hafi dregist verulega saman í kjölfar aukinnar útbreiðslu kórónaveirunnar. Það hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir flugrekendur þar í landi sem sjái nú fram á ört versnandi lausafjárstöðu. „Flugrekstur er mikilvægur hluti af innviðum Noregs og framlag greinarinnar til þjóðarbúsins er mikið,“ segir í umsögninni.

Segja má að þessi úrskurður EFTA hafi gildi hér á landi líka því eitt af hlutverkum ESA er að framfylgja þeim takmörkunum á ríkisaðstoð sem EES samningurinn setur norskum og íslenskum stjórnvöldum. Í ljósi aðstæðna í heiminum í dag heimilar ESA aftur á móti opinberan stuðning við flugrekstur samkvæmt þeirri leið sem Norðmenn ætla að fara.

Þess má geta að hvorki Norwegian né SAS eru umsvifamikil í annarri ferðaþjónstu en flugrekstri. Umsvif Icelandair teygja sig aftur á móti mun víðar og tvær af stærstu ferðaskrifstofum landsins, Iceland Travel og Vita, tilheyra samsteypunni. Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, telur því ekki eðlilegt að mögulegur opinber stuðningur við flugrekstur Icelandair fari í að efla dótturfélög fyrirtæksins.

„Ef það kemur til þess að íslenska ríkið muni styðja við Icelandair með séraðgerðum þá verður samdægurs að skilja flugreksturinn frá þessum ferðaskrifstofum og setja Icelandair miklar skorður í sölu á pakkaferðum. Það yrði galið að ríkisstuðningur við Icelandair yrði nýttur til að styrkja dótturfélög flugfélagsins í samkeppni við fyrirtæki eins og okkar,“ sagði Þórunn í viðtali við Túrista í gær.


Viltu styðja Túrista?

Nú þegar virkilega á reynir þá stendur Túristi vaktina frá morgni til kvölds. Ef þú ert einn þeirra lesenda sem finnst gagn í skrifum Túrista þá væri ómetanlegt ef þú myndir leggja útgáfunni lið. Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar.