Samfélagsmiðlar

Alvöru hætta á að íslensk ferðaþjónusta falli eins og spilaborg

Stjórnvöld verða að styðja við ferðaþjónustuna í gegnum núverandi krísu að mati framkvæmdastjóra Nordic Visitor. Hann segir að þó staðan sé þung í dag þá eigi áfangastaðurinn Íslands sér bjarta framtíð.

„Bankarnir voru of stórir til að hægt væri að bjarga þeim en það er ferðaþjónustan ekki,” segir Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor.

Það hefur dregið umtalsvert úr ferðalögum fólks síðustu vikur í takt við aukna útbreiðslu nýju kórónaveirunnar. Hið boðaða þrjátíu daga bann bandarískra yfirvalda á farþegaflugi frá Evrópu mun svo gera illt verra og viðbúið að það muni draga snögglega úr fjölda ferðamanna hér strax í næstu viku. Bandaríkjamenn hafa nefnilega verið fjölmennastir í hópi ferðamanna á Íslandi.

Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri og eigandi Nordic Visitor, sem er ein stærsta ferðaskrifstofa landsins, segir stöðuna í greininni þunga. „Það er alvöru hætta á að íslensk ferðaþjónusta falli eins og spilaborg ef stjórnvöld sýna ekki stuðning sinn í verki.”

Þar vísar Ásberg meðal annars til þess að formenn stjórnarflokkana boðuðu á mánudag mótvægisaðgerðir vegna þess skaða sem dreifing kórónaveirunnar hefur nú þegar valdið. Hann segist fagna því að þar sé horft sérstaklega til ferðaþjónustunnar en nú sé mikilvægt að ráðamenn útskýri betur hvað felist í þessum aðgerðum.

Sjálfur bindur Ásberg vonir við að veittur verði frestur á greiðslu opinberra gjalda og útsvari. Einnig þurfi Vinnumálastofnun að veita heimild fyrir lægra starfshlutfalli starfsfólks svo ekki þurfi að koma til uppsagna. „Þetta væru aðgerðir sem myndu virka strax.”

Máli sínu til stuðnings bendir Ásberg á að uppsagnir séu oft líklegasta aðgerðin sem fyrirtæki í lausafjárkrísu grípi til. Hann telur það þó ljóst að ekki munu öll ferðaþjónustufyrirtæki lifa af þessa niðursveiflu sem nú er að hefjast.

En þrátt fyrir að óveðurskýin hafi hrannast upp síðustu vikur þá segir Ásberg að ennþá berist bókanir frá ferðafólki. Nokkrar hafi komið inn í morgun og gærdagurinn hafi verið yfir væntingum. „Heilt yfir er mikill samdráttur í fjölda nýrra bókanna hjá okkur. Það sem ég heyri svo í kringum mig er fækkun um 30 til 70 prósent og á það á varla eftir að batna á næstu vikum.”

„Ef ég hefði fengið að velja tímabil fyrir svona flugbann þá hefði það verið núna enda lágannatími í ferðaþjónustu um þessar mundir. Janúar og apríl eru lélegir mánuðir því þá koma rétt um sex prósent ferðamanna til landsins,” segir Ásberg.

Starfsmenn Nordic Visitor vinna núna að því að hafa samband við alla þá sem áttu að koma til Íslands í mars og í apríl og bjóða þeim að seinka ferðunum. „Sú vinna gengur vel og okkur hefur tekist að róa þá viðskiptavini okkar sem eiga bókað í sumar með því að bjóða þeim hagstæða afbókunarskilmála.“

Ásberg undirstrikar að það sé töluverður munur á núverandi krísu og efnahagshruninu. „Bankarnir voru of stórir til að hægt væri að bjarga þeim en það er ferðaþjónustan ekki,” segir Ásberg og er þess fullviss að Ísland verði áfram vinsæll áfangastaður.

„Ferðaþjónustan verður fljót að ná sér og þar mun veikari króna hjálpa. Það er líka gott að hafa í huga að þetta ástand er ekki bundið við Ísland. Neikvæð umræða um aðra áfangastaði og jafnvel ferðamáta, til dæmis skemmtiferðaskip gæti því jafnvel komið okkur til góða. Hið boðaða markaðsátak í samstarfi við stjórnvöld verður líka þýðingarmikið.”

Nordic Visitor keypti nýverið ferðaskrifstofuna Terra Nova sem áður tilheyrði Primera Travel samsteypunni. Aðspurður um hvort hann sjái eftir þeim viðskiptum í ljósi stöðunnar þá segir Ásberg svo alls ekki vera.

„Ég hef verið í þessum geira í 20 ár og búinn að fara í gegnum margt. Sú reynsla kennir manni að það er ekki spurning hvort heldur hvenær erfiðar aðstæður koma upp. Hvenær gýs til að mynda Katla? Við pössum því upp á lausafjárstöðuna og það var líka gert í kaupunum á Terra Nova. Sú viðbót við reksturinn gerir fyrirtækið líka sveigjanlegri og til dæmis þá gæti það komið til góðs að söluaðilar, eins og Terra Nova, höfðu gengið frá samningum í evrum við erlendar ferðaskrifstofur og sjá því fram á gengishagnað nú þegar krónan gefur eftir.

Árið 2019 kom vel út hjá okkur og við höfum mikla reynslu af því að takast á við áskoranir þannig að munum komast í gegnum þetta ástand og hverja aðra hindrun.

Nýtt efni

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play, hefur óskað eftir að láta af störfum. Hann mun sinna stöðunni þar til eftirmaður hans tekur við að því segir í tilkynningu. Ólafur Þór tók við fjármálasviði Play eftir að Þóra Eggertsdóttir „ákvað að segja skilið við félagið" í október 2022. Hún hafði þá gegnt stöðu fjármálastjóra allt frá …

Hjá erlendum hagstofum lenda íslenskir ferðamenn oft í flokknum „aðrir" þegar gefnar eru út tölur um gistinætur á hótelum. Þannig er það þó ekki í þýsku höfuðborginni og samkvæmt nýjustu tölum þaðan keyptu íslenskir gestir 5.530 gistinætur á hótelum í Berlín í janúar og febrúar. Þetta er meira en tvöföldun frá sama tíma í fyrra …

Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6 prósent og um 3,9 prósent ef húsnæði er tekið út fyrir sviga. Verðmælingar Hagstofunnar sýna aftur á móti að verð á farmiðum til útlanda lækkaði um 11,4 prósent í apríl í samanburði við sama mánuð í fyrra. Þá voru páskarnir aðra helgina í apríl en eftirspurn …

Á árinu 2023 minnkaði sala í Danmörku á prentuðum bókum um 70,2 milljónir danskra króna (tæpa 1,5 milljarða íslenskra kr.) en á sama tíma jókst velta með stafrænar bækur, hljóð og e-bækur, um 35,3 milljónir danskra kr. (rúmar 700 milljónir kr). Einmitt þessi breyting kemur illa niður á rithöfundum landsins því tekjur þeirra og forlaganna …

Af þeim sex norrænu flugfélögum sem skráð eru á hlutabréfamarkað þá gengur best hjá hinu norska Norwegian. Félagið stokkaði upp leiðakerfið í heimsfaraldrinum, endursamdi við birgja og starfsfólk og í fyrra skilaði Norwegian methagnaði. Sú niðurstaða skrifaðist meðal annars á þá ákvörðun stjórnenda að draga töluvert úr umsvifunum yfir vetrarmánuðina. Það hefur leitt til að …

Í ágúst 2026 er áætlað að Victorian Fruit and Vegetable Market í höfuðborg Írlands opni dyr sínar á nýjan leik. Markaðurinn hefur verið lokaður í fimm ár og byggingin legið undir skemmdum en með hjálp 25 milljón evra þróunarstyrks er markmiðið að nýr markaður skáki ekki aðeins hinum víðfræga Enska markaði í Cork heldur mörkuðum …

Play tapaði 3,1 milljarði króna fyrir skatt á fyrsta ársfjórðungi í fyrra en núna var tapið 19 prósent hærra eða 3,7 milljarðar króna. Félagið jók framboðið um 63 prósent á milli þessara tveggja fjórðunga en í flota félagsins voru sex til átta þotur í byrjun síðasta árs en núna eru þær tíu. Einar Örn Ólafsson, …

Sjóðir bandaríska flugvélaframleiðandans Boeing minnkuðu um 3,9 milljarða dollara á fyrsta ársfjórðungi. Upphæðin jafngildir 550 billjónum íslenskra króna og skýringin á þessum mikla fjármagnsbruna liggur í endurteknum göllum í þeim flugvélum sem fyrirtækið framleiðir. Af þeim sökum hefur bandaríska flugöryggisstofnunin takmarkað afköstin í verksmiðjum Boeing við 38 Max þotur í mánuði. Þar með þurfa flugfélög …