Halda bara úti innanlandsflugi og ferðum á lykiláfangastaði

Um níutíu prósent af starfsmönnum SAS þurfa ekki að mæta í vinnu þar sem starfsemi flugfélagsins verður nærri því sett í dvala á morgun.

Mynd: SAS

Daglega fljúga þotur SAS til Íslands frá Kaupmannahöfn og Ósló og í sumar eru einnig á dagskrá áætlunarferðir hingað frá Stokkhólmi. Þessar ferðir og flestar aðrar eru nú í lausu lofti því rétt í þessu tilkynnti Rickard Gustafsson, forstjóri félagsins, að dregið yrði úr nærri öllu flugi félagsins á morgun. Aðeins stendur til að halda úti innanlandsflugi í Skandinavíu og svo ferðum á lykiláfangastaði eins og París, London og Frankfurt og jafnvel Tókýó.

Á sama tíma og starfsemin dregst svona mikið saman þá ætlar SAS að senda heim um 10 þúsund starfmenn eða um níu af hverjum tíu. Í máli forstjórans á fundi með blaðamönnum í dag óskaði Gustafson eftir því að sænsk stjórnvöld myndu fylgja fordæmi Norðmanna og Dana sem gera fyrirtækjum auðveldara að senda fólk í leyfi með styttri fyrirvara.