Halda sig við sumarferðir til Ísland

Tíunda sumarvertíð bandaríska flugfélagsins Delta er handan við hornið. Aftur gerir félagið hins vegar hlé á ferðunum hingað frá hausti og fram á vor.

Þota Delta flugfélagsins á Keflavíkurflugvelli. Fyrsta sumarið sem félagið flaug til Íslands þá fjölgaði bandarískum ferðamönnum um 63 prósent. Mynd: Delta Air Lines

Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines byrjar að fljúga frá Íslandi til New York 2. apríl næstkomandi eftir fimm mánaða vetrarhlé. Ferðir Delta til Minneapolis hefjast svo 21. maí næstkomandi.

Til New York verður flogið fimm daga í viku fram til 22. maí en eftir það alla daga vikunnar. Til Minneapolis verða flugferðir daglega fram yfir fyrstu viku september.

Þetta er tíunda árið í röð sem Delta Air Lines flýgur milli Íslands og Bandaríkjanna. Frá upphafi hefur verið flogið til New York, en Minneapolis bættist við 2016. Það ár hóf Delta jafnframt að fljúga allan ársing hring til New York, en gerði hlé á vetrarferðunum síðastliðið haust. Fyrsta sumarið sem Delta flaug til Íslands þá fjölgaði bandarískum ferðamönnum hér á landi um 63 prósent samkvæmt talningu Ferðamálastofu.

Líkt og fyrri ár er flogið milli Íslands og Bandaríkjanna með Boeing 757 þotum Delta. Wi-fi tenging við internetið er í boði á flugleiðunum, svo og afþreyingarkerfi fyrir alla farþega. Innifalið í fargjaldi eru allar máltíðir, drykkir, innritaður farangur, handfarangur og sætaval samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu.

Þar segir jafnframt að brottfarartími Delta frá Keflavíkurflugvelli hafi þótt henta íslenskum ferðalöngum sérstaklega vel, en ýmist er farið í loftið rétt fyrir klukkan 9 eða 11 að morgni.

„Vegna tímamismunar er lent á áfangastað í Bandaríkjunum um hádegisbil. Frá flugvöllunum í New York og Minneapolis er val um tengiflug samdægurs til rúmlega 80 áfangastaða í Norður-Ameríku, Suður-Ameríku og karabíska hafinu,“ segir í tilkynningu.