Hótel vilja staðgreiðslu frá áhöfnum Norwegian

Staða norska flugfélagsins Norwegian er veik og til marks um það þá var flugliðum félagsins neitað um að skrifa hótelgistingu við Gatwick flugvöll á vinnuveitandann.

norwegian vetur
Mynd: Norwegian

Ekkert flugfélag flýgur jafn mörgum milli Íslands og Spánar og Norwegian gerir. Þó umsvifin hafi reyndar dregist saman þá er félagið áfram stórtækt í flugi héðan til Alicante og Barcelona. Í lok þessa mánaðar lýkur svo áætlun félagsins í flugi héðan til Tenerife og Las Palmas.

Sú alvarlega krísa sem kórónaveiran hefur valdið hefur aftur á móti leikið félagið grátt sem bætist ofan á vandræðin sem félagið hefur átt í vegna Dreamliner og MAX þotanna frá Boeing. Hlutabréfaverð Norwegian hefur því fallið hraðar síðustu daga en hjá keppinautunum sem skrifast líka á hversu skuldsett félagið er.

Norskir fjölmiðlar fylgjast grannt með gangi mála hjá félaginu og í dag sagði Dagens Nærlingsliv frá því að áhöfnum Norwegian við Gatwick flugvöll hafi verið neitað um gistingu á hóteli á flugvallarsvæðinu vegna skuldar vinnuveitandans.

Sem fyrr segir er vel fylgst með stöðu Norwegian í Noregi og víðar enda er félagið umsvifamikið og er í farþegum talið þriðja stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu.