Icelandair endurskoðar flugáætlun sína fyrir næstu vikur

Vegna minnkandi eftirspurnar stefnir í að Icelandair skeri meira niður en áætlað var.

Mynd: Icelandair

Það hefur dregið úr bókunum hjá Icelandair og eftirspurn hefur dregist saman sem rekja má til útbreiðslu COVID-19 veirunnar samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu frá Icelandair Group. Þar segir jafnframt að viðbrögð við veirunni hafi þegar haft aukin áhrif á ferðahegðun fólks og af þeim sökum mun Icelandair draga meira úr flugi í mars og apríl en tilkynnt var um síðastliðinn föstudag. Þá var talað um að fella niður áttatíu brottfarir sem nemur um tvö prósent af ferðafjölda félagsins næstu vikur.

„Ekki liggur fyrir að svo stöddu hversu mikið verður dregið úr flugáætlun félagsins, en 3.500 flug eru áætluð í mars og apríl. Endanleg breyting á framboði mun ráðast af því hvernig staðan þróast á næstu dögum og vikum. Vinna við þessar breytingar er þegar hafin og uppfærð áætlun félagsins verður birt um leið og hún liggur fyrir. Í kjölfarið verður haft samband við farþega sem þegar eiga bókuð flug með félaginu verði breyting gerð á flugi þeirra,“ segir í tilkynningu. Því er bætt við að við þessar aðstæður kemur mikilvægi sveigjanlegs leiðakerfis og sterk lausafjárstaða félagsins bersýnilega í ljós.

„Það er ljóst að útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur áhrif á ferðaplön viðskiptavina okkar, í það minnsta til skemmri tíma. Eins og við höfum áður sagt, þá gera sveigjanleiki leiðakerfisins og sterk lausafjárstaða félagsins okkur kleift að bregðast hratt við breyttri stöðu á mörkuðum félagsins. Heilsa og öryggi viðskiptavina og starfsmanna okkar er ávallt forgangsmál og um þessar mundir leggjum við gríðarlega mikla áherslu á reglulega upplýsingagjöf, aukna vöktun og uppfærslu verkferla. Við höldum áfram að fylgjast náið með þróun mála og vinnum náið með yfirvöldum og fylgjum leiðbeiningum þeirra á hverjum tíma,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu.

Líkt og Túristi greindi frá í gær þá virðist sem boðaður niðurskurður hjá stórum flugfélögum eins og Lufthansa og British Airways, nú í mars, muni ekki hafa áhrif á Íslandsflug félaganna.