Icelandair sker áberandi minnst niður

Á meðan evrópsk flugfélög skera niður bróðurpart allra ferða þá er samdrátturinn mun minni hjá Icelandair.

Mynd: Nils Nedel / Unsplash

Í tilkynningu sem Icelandair sendi frá sér á miðnætti í gær segir að búið sé að skera niður flug um þrjátíu prósent. „Líklegt er að dregið verði enn frekar úr flugframboði á meðan ferðatakmarkanir eru í gildi og staðan getur breyst hratt,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Núverandi niðurskurður hjá Icelandair, um þrjátíu prósent, er töluvert lægri hlutfallslega en stjórnendur stærstu flugfélaga Evrópu horfa fram á. Þar er hann í raun sjaldnast minni en sjötíu prósent samkvæmt þeim tilkynningum sem borist hafa frá hefðbundnum evrópskum flugfélögum helgina og það sem af er þessum mánudegi.

Þannig ætlar forsvarsfólk IAG, eignarhaldsfélags British Airways, Iberia, Vueling og Aer Lingus, að fella niður þrjár af hverjum fjórum ferðum. Önnur stór samsteypa, Air France/KLM, sker sitt framboð niður um 70 til 90 prósent til næstu tveggja mánaða og hjá Finnair verður samdrátturinn 90 prósent. Ryanair sker niður um 80 prósent.

Á blaðamannfundi í gær sagði forstjóri SAS að félagið færi nærri því í dvala frá og með deginum í dag og AirBaltic leggur öllum sínum flugvélum til næstu fjögurra vikna samkvæmt ákvörðun sem kynnt var á laugardag. Um leið og flugfélög fella niður ferðir þá eiga farþegar rétt á endurgreiðslum og það gæti því verið kostur fyrir sum þeirra að halda sinni dagskrá og sérstaklega ef bókunarstaðan er góð.

Stór evrópsk félög eins og Lufthansa Group, easyJet, Wizz Air og Norwegian fleiri hafa ekki gefið út uppfærðar tölur um niðurskurð en taflan hér að neðan verður uppfærð þegar þær koma.