Indigo Partners sjá tækifæri í veikburða flugfélögum

Bandarísku fjárfestarnir sem íhuguðu kaup á hlut í WOW air eru nú með fulla vasa fjár eftir að hafa selt stóran hlut í Wizz Air rétt áður en hlutabréfamarkaðir hrundu. Þeir skoða nú möguleika á félögum sem eiga lítið en skulda mikið.

Tölvuteikning Airbus af þotum þeirra flugfélaga sem Indigo Partners eiga hlut í.

Það var í byrjun síðasta mánaðar sem Bandaríkjamaðurinn Bill Franke, eigandi Indigo Partnes, losaði sig við stærstan hluta hlutabréfa sinna í Wizz Air. Franke hefur lengi verið stjórnarformaður þessa ungverska lággjaldaflugfélags og útlit er fyrir að hann verði það áfram. Hann þurfti hins vegar að minnka hlut sinn í Wizz Air þar sem reglur Evrópusambandsins kveða á um að meirihlutinn í evrópskum flugfélögum verði að vera í höndum evrópskra fyrirtækja eða einstaklinga.

Það hefur því legið fyrir lengi að Franke og félagar hjá Indigo Partners yrðu að selja í Wizz Air. Og í ljósi atburða síðustu daga þá má segja að Bandaríkjamennirnir hefðu vart getað selt á betri tíma því gengi bréfa í Wizz Air hefur lækkað um nærri fimmtung frá því að hluturinn var seldur í byrjun febrúar. Skrifast þessi mikla lækkun á útbreiðslu kórónaveirunnar um Evrópu sem hefur rýrt virði flugfélaga út um víða veröld.

Indigo Partners fengu áttatíu milljarða fyrir bréfin sín í Wizz Air en til samanburðar er verðmæti Icelandair í dag rétt um þrjátíu milljarðar króna í dag. Þannig að ef þessir fyrrum viðsemjendur Skúla Mogensen sjá ennþá tækifæri í íslenskum flugrekstri þá eiga þeir hæglega fyrir Icelandair.

Hvort sem þessi áhugi er fyrir hendi eða ekki þá er ljóst að forsvarsmenn Indigo Partners sjá kauptækifæri á fluggeiranum nú þegar kórónaveiran hefur leikið mörg flugfélög grátt. Og reyndar líka þau sem Indigo Partners eiga stóra hluti í. „Flugfélögin okkar eru í dag í góðri stöðu en við leitum tækifæra í félögum sem eru ekki með sterkan efnahagsreikning,“ sagði Brian Franke, sonur Bill, á ráðstefnu vestanhafs í síðustu viku. Hann bætti því við að þegar efnahagsástandið versnar þá leiti fólk eftir ódýrari ferðalögum sem væru kjöraðstæður fyrir lággjaldaflugfélög eins og Indigo Partners hefur fjárfest í samkvæmt frétt Flight Global.