Íslandsflug ekki skorið niður hjá þeim stóru í mars

Stjórnendur British Airways, Lufthansa og SAS hafa gefið út hvaða flugleiðir lenda undir niðurskurðarhníf þeirra næstu þrjár vikur. Þar er nafn Keflavíkurflugvallar ekki að finna.

Mynd: Isavia

Skandinavíska flugfélagið SAS tilkynnti nú í lok vinnudags að félagið myndi aflýsa um tvö þúsund flugferðum fram til mánaðamóta. Það jafngildir um átta prósent af heildarframboði félagsins á þessu tímabili. Samkvæmt úttekt Routes Online þá er flug til Íslands ekki meðal þeirra flugleiða sem skornar verða niður en SAS býður upp á daglegar ferðir hingað frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn.

Á heimasíðu Routes Online er einnig að finna samantekt á boðuðum niðurskurði British Airways og Lufthansa. Þar er Íslandsflug félaganna tveggja ekki heldur að finna.

Icelandair hefur aftur á móti fækkað brottförum sínum í mars og apríl um áttíu talsins. Það jafngildir um tvö prósent af heildarframboði félagsins þessa tvo mánuði. Niðurskurðurinn jafnast á við að Lufthansa myndi ekkert fljúga til Íslands á þessum tíma líkt og Túristi greindi frá á laugardag.

Telja má líklegt að frekari niðurskurður sé framundan hjá flugfélögunum í vor enda hefur útbreiðsla kórónaveirunnar aukist síðustu sólarhringa og þar með dregið úr farmiðapöntunum.