Kaupmannahafnarflugvöllur sendir 1.500 starfsmenn heim

Flugsamgöngur hafa lamast síðustu vikur og nú eru ekki lengur verkefni fyrir stóran hluta þeirra sem vinna á fjölfjörnasta flugvelli Norðurlanda.

Frá Kaupmannahafnarflugvelli, fjölförnustu flughöfn Norðurlanda. Mynd: CPH

Fjöldi farþega á Kaupmannahafnarflugvelli hefur nú þegar dregist saman um 70 prósent. Búist er við ennþá meiri samdrætti vegna þess ferðabanns sem nú ríkir í Danmörku en tilgangur þess er að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. Vegna stöðunnar sem nú er uppi verða fimmtán hundruð af 2600 starfsmönnum flugvallarins sjálfs sendir heim samkvæmt tilkynningu frá Kaupmannhafnarflugvelli.

Er þetta gert í samræmi við þær aðgerðir sem dönsk stjórnvöld hafa hrundið í framkvæmd til stuðnings við atvinnulífið á meðan kórónaveiran breiðist út. Mun hið opinbera borga 75 prósent af launum starfsmanna yfir ákveðið tímabil.

Vegna ástandsins verður dregið verulega úr allri þjónustu í flugstöðinni í Kaupmannahöfn. Verslanir og veitingastaðir munu loka jafnt og þétt næstu sólarhringa. „Við erum að takast á við mjög óvenjulega og alvarlega krísu fyrir flugvöllinn,“ segir framkvæmdastjóri Kaupmannahafnarflugvallar í tilkynningu.

Þar kemur einnig fram að áform um stækkanir verði settar á ís. Til að mynda viðbætur við Terminal 3 flugstöðvarbygginguna en þar eru einmitt innritunarborð SAS og Icelandair.