Kemur líka niður á innanlandsfluginu

Það hefur ekki bara dregið verulega úr ferðum fólks út í heim. Nú fljúga líka færri innanlands.

Mynd: Air Iceland Connect

„Jú, við finnum fyrir því. Það er búið að aflýsa flestum viðburðum í landinu, hvort sem það eru árshátíðir, aðalfundir, íþróttamót eða annað. Þar með eru öll ferðalög því tengd afbókuð,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, aðspurður um hvort áhrifa kórónaveirunnar gæti ekki líka í innanlandsfluginu. Að sögn Árna ná flestar afbókanir til ferðalag í mars og apríl en þar sem nokkrum viðburðum hafi verið frestað fram í maí þá séu bókanir fyrir þann mánuð og sumarið sjálft ennþá í gangi. „Það er jú gert ráð fyrir að þetta gangi yfir á tveimur til þremur mánuðum,“ bætir hann við.

Í febrúar fækkaði farþegum á innanlandsflugvöllunum um 17 prósent samkvæmt nýbirtum tölum Isavia. Sá samdráttur jafngildir um níu þúsund farþegum en hafa ber í huga að alþjóðaflug frá Reykjavík og Akureyri er inni í þessum tölum. Eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan þá var niðursveiflan hlutfallslega mun meiri á Akureyri í febrúar en í Reykjavík og Egilsstöðum.

Skýringin á því liggur að miklu leyti í því að nú flýgur Air Iceland Connect ekki lengur milli Akureyrar og Keflavíkurflugvallar. Eins hafði gjaldþrot Super Break neikvæð áhrif fyrir norðan þar sem ferðaskrifstofan stóð fyrir beinu flugi til Akureyrar á þessum tíma í fyrra og hittifyrra. Á móti kemur að síðustu vikur hefur hollenska ferðaskrifstofan Voigt Travel boðið upp á Íslandsferðir þar sem farþegar fljúga beint frá Amsterdam til Akureyrar.

Slæm veðurskilyrði hafa líka komið niður á fluginu innanlands nú í ársbyrjun. Í janúar þurfti að aflýsa miklu fjölda ferða og þá fóru um tíu þúsund færri um flugvellina.