Landsmenn fá gjafabréf til ferðalaga innanlands

Ein af þeim aðgerðum sem boðaðar eru til að efla íslenska ferðaþjónustu er sérstök inneign til handa íbúum landsins.

Frá Sjóböðunum við Húsavík. Mynd: GeoSea

Allir íbúar á Íslandi átján ára og eldri fá stafrænt gjafabréf frá stjórnvöldum. Þetta kom fram á kynningarfundi á vegum ríkisstjórnarinnar þar sem farið var yfir aðgerðir sem grípa á til vegna þeirra efnahagslegu afleiðinga sem útbreiðsla kórónaveirunnar hefur valdið.

Gjafakortið á að hvetja til ferðalaga innanlands og er litið á þetta sem beinan stuðning við íslenska ferðaþjónustu að því segir í kynningarefni.

Kostnaður við útgáfu gjafabréfsins er um einn og hálfur milljarður króna. Nánari útfærsla á þessari aðgerð er í vinnslu í samvinnu við heildarsamtök ferðaþjónustufyrirtækja.