Leggja niður allt flug næstu fjórar vikur

Flugvélar AirBaltic eru ekki væntanlegar til Keflavíkurflugvallar né nokkurs annars flugvallar á næstunni.

Mynd: AirBaltic

Í farþegum talið er lettneska flugfélagið AirBaltic jafn stórt flugfélag og Icelandair. Félagið heldur úti áætlunarflugi frá bæði Riga og Tallinn í Eistlandi og frá þeirri fyrrnefndu fljúga þotur félagsins til Íslands allt að fjórum sinnum í viku.

Nú í kvöld tilkynntu stjórnendur félagsins að tekin hefði verið ákvörðun um að leggja niður allt áætlunarflug frá 17. mars til 14. apríl. Þetta er gert í samráði við stjórnvöld í Lettlandi til að reyna að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar samkvæmt tilkynningu.

Lettneska ríkið fer með um 80 prósent hlut í AirBaltic og hefur félagið verið í örum vexti síðustu ár.