Leggja niður flugvalla- og farþegagjöld tímabundið

Til að styðja við flugrekstur í Noregi þá verður gjaldtaka af flugrekendur dregin saman næstu mánuði.

Frá Óslóarflugvelli við Gardermoen. Mynd: Avinor

Í Noregi eru þungar áhyggjur af stöðu Norwegian flugfélagsins og á sama tíma hafa forsvarsmenn SAS og Widerøe boðað mikinn niðurskurð vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Ráðamenn í Noregi höfðu boðað aðgerðir til að vega upp á móti krísunni og samkvæmt fyrstu tillögum þeirra þá verða sérstök farþegagjöld felld niður frá 1. janúar sl. og fram til 31. október. Flugvallargjöld verða felld niður til 30. júní.

Torbjørn Lothe, framkvæmdastjóri samtaka norskra flugrekenda, segir þessar aðgerðir spara flugfélögum samtals um 240 milljónir norskra króna í mánuði en það jafngildir um 3,3 milljörðum íslenskra króna. Dagens Næringsliv hefur það eftir Lothe að þessar aðgerðir skili þónokkru til flugfélaganna nú þegar þar sem þau þurfi ekki að standa skil á gjöldum frá og með síðustu áramótum. Aftur á móti sé ávinningurinn minni fram í tímann því nú séu færri á ferðinni og niðurfelling á notendagjöldum skili flugfélögunum því litlu eins og staðan er núna. Lothe kallar því eftir aðgerðum sem bæta lausafjárstöðu flugfélaganna.

Og til marks um hvað flugumferðin hefur dregist saman í Noregi þá íhuga nú Avinor, sem rekur flugvellina þar í landi, að loka einni flugbraut á Óslóarflugvelli og jafnvel fleiri flugvöllum í landinu. „Meðal annarra aðgerða sem til greina koma er skertur opnunartími. Þetta er ekkert sem við höfum tekið ákvörðun um en erum að skoða,“ segir Joachim Westher Andersen, forstjóri Avinor. Þess má geta að Avinor er í raun alveg eins fyrirtæki og Isavia, það er fyrirtæki í eigu hins opinbera sem rekur flugvelli landsins.